25. júl. 2017

Opið hús í Króki á Garðaholti á sunnudögum í sumar

Opið hús í Króki á Garðaholti á sunnudögum í sumar
  • Séð yfir Garðabæ


Nokkrir tugir gesta hafa heimsótt bæinn Krók á Garðaholti undanfarna sunnudaga en þar verður opið hús alla sunnudaga í sumar frá kl. 13 til 17. Krókur er gott dæmi um húsakost og lifnaðarhætti alþýðufólks á þessum landshluta á fyrri hluta 20. aldar og hefur því ótvírætt menningarlegt og sögulegt gildi. Í Króki er eitt herbergi sérstaklega ætlað sem vinnuaðstaða fyrir listamenn. Í sumar mun menningar- og safnanefnd Garðabæjar auglýsa eftir listamönnum sem vilja fá afnot af Króki.

Fimmtudaginn 3. júlí heimsóttu Krók börn sem taka þátt í útilífs- og ævintýranámskeiði Vífils. Börnin voru í hjólatúr og að lokinni fjöruferð var ferðinni heitið í Krók. Þeim þótti gaman að sjá Krók og þá muni sem þar eru til sýnis. Ungur og áhugasamur drengur hafði á orði að bærinn Krókur væri jafngamall og Seljavallalaug (Seljavallalaug er byggð árið 1922). Í vor heimsóttu skólabörn úr Flata- og Hofsstaðaskóla bæinn og gátu þau fræðst um sögu bæjarins um leið og þau stunduðu útivist.Krókur á Garðaholti er lítill bárujárnsklæddur burstabær sem var endurbyggður úr torfbæ árið 1923. Bærinn er í dag með þremur burstum en árið 1923 var miðburst bæjarins byggð og bæjarhúsin þá aðeins baðstofa og eldhús auk lítils skúrs við útidyrnar. Krókur er staðsettur í nágrenni samkomuhússins á Garðaholti.

Um vorið 1934 hafði Þorbjörg Stefanía Guðjónsdóttir fengið ábúð á Króki en maður hennar var Vilmundur Gíslason. Þau hjónin áttu fjögur börn og Guðrún Sveinsdóttir móðir Vilmundar bjó einnig hjá þeim. Þorbjörg Stefanía Guðjónsdóttir (kölluð Tobba) var fædd 1. maí árið 1899. Afmælisdagur hennar var alltaf mikill hátíðisdagur hjá fjölskyldunni. Í Króki var búið allt til ársins 1985 þegar Þorbjörg lést. Afkomendur Þorbjargar og Vilmundar í Króki gáfu Garðabæ bæjarhúsin í Króki ásamt útihúsum og innbúi árið 1998 með því skilyrði að bærinn yrði endurbyggður. Jón Nordsteien arkitekt stjórnaði endurgerð bæjarins og Einar Hjartarson húsasmíðameistari var fenginn til að vinna verkið. Systurnar Elín og Vilborg Vilmundardætur höfðu umsjón með uppröðun húsmuna.

Aðgangur að Króki er ókeypis í sumar og tilvalið að fá sér sunnudagsrúnt eða göngutúr um Garðaholtið og heimsækja Krók í leiðinni.