12. mar. 2013

Samrekinn leik- og grunnskóli í Flataskóla

Fyrstu skrefin í átt að samreknum leik- og grunnskóla í Flataskóla voru tekin haustið 2012 með stofnun 5 ára bekkjar í skólanum. Bæjarráð samþykkti á fundi sínum í morgun að taka næstu skref með því að skipaður verði verkefnahópur til að vinna að því að breyta skipulagi og hönnun húsnæðis og lóðar skólans til að það henti leikskólastarfi.
  • Séð yfir Garðabæ

Fyrstu skrefin í átt að samreknum leik- og grunnskóla í Flataskóla voru tekin haustið 2012 með stofnun 5 ára bekkjar í skólanum.  Bæjarráð samþykkti á fundi sínum í morgun að taka næstu skref með því að skipaður verði verkefnahópur til að vinna að því að breyta skipulagi og hönnun húsnæðis og lóðar skólans til að það henti leikskólastarfi. Hópurinn mun vinna í samstarfi við stjórnendur Flataskóla og Einar Ingimarsson arkitekt. Einnig verður hlutverk hópsins að vinna hugmyndavinnu og skipulag vegna innra starfs. 

Markmið leik- og grunnskóla samþætt

Námið í Flataskóla verður sett fram eftir sameiginlegum þáttum sem kveðið er á um í Aðalnámskrá leik- og grunnskóla, en þeir eru læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun. Skilgreind verða markmið í samræmi við nám og þarfir leikskólabarna og grunnskólanemenda og unnið að þeim á samþættan hátt.

Heildstæður skóladagur

Jafnframt því að auka samfellu í námi barna felst sérstaða samrekins skóla einnig í heildstæðum skóladegi og heilsársskóla fyrir yngri börnin. Starfsemi tómstundaheimilis verður samofin leik og starfi yngri barnanna. Nemendur frá 18 mánaða að níu ára aldri stendur til boða heildstæður skóladagur og heilsársskóli að frátöldu sumarleyfi. 

Húsnæðið lagað að þörfum ungra barna

Unnið verður að því að breyta húsnæði skólans og aðlaga það að þörfum og námi ungra barna. Við endurhönnun húsnæðisins innan- og utanhúss verða sameinaðir kostir, hefðir og nýjungar í húsnæði leikskóla og grunnskóla. 

Nýr valkostur

Með samrekstri leik- og grunnskóla í Flataskóla eykst fjölbreytni í skólastarfi í Garðabæ og val foreldra á skólagerð fyrir barnið sitt. Möguleiki gefst á samræmi og samhengi í menntun barnanna frá upphafi skólagöngu þó svo að sérkenni hvors skólastigs haldist. Bæði skólastigin njóta góðs af nálægðinni og stefnt verður að fjölbreyttum viðfangsefnum og starfsháttum til að koma til móts við einstaklingsþarfir hvers barns.

Starf Flataskóla nær allt til ársins 1958 og hafa á þeim tíma skapast hefðir og menning sem verða hornsteinar samrekins leik- og grunnskóla. Má þar nefna Dag íslenskrar tungu, ljóðasamkeppni, fjöldasöng, aðventumessu og jólaskemmtun og ýmsa listviðburði. Með yngri börnum koma nýjar hefðir og ný menning sem mun auðga þá menningu sem til staðar er.