Innlit í Glit
Hönnunarsafn Íslands opnar sýningu á Safnanótt á völdum munum frá árunum 1958 til 1973 úr sögu Leirbrennslunnar Glits hf. Á sýningunni er lögð áhersla á þá staðreynd að þrátt fyrir flókna sögu Glits á löngum starfstíma, voru menn fyrsta rúma áratuginn einbeittir í því að nota íslenskan leir og íslensk jarðefni, sérstaklega hraunið, í framleiðsluna.
Gamla Glit og Stóra Glit
Glit var um margt langt á undan sinni samtíð og markar djúp spor í íslenskri leirlistarsögu, á tíma þegar íslenskur listiðnaður var í frumbernsku. Saga fyrirtækisins er kaflaskipt en Leirbrennslan Glit hf. var formlega stofnuð 10. júní 1958 af þeim Einari Elíassyni verslunarmanni, Pétri Sæmundsen, þáverandi formanni Félags íslenskra iðnrekenda og síðar bankastjóra Iðnaðarbankans, og Ragnari Kjartanssyni, myndhöggvara og leirlistamanni. Stofnfundurinn átti sér stað á kontór lögfræðingsins Páls S. Pálssonar í Bankastræti 7. Leirbrennslan var starfrækt á Óðinsgötu 13b allt til 1971 þegar ákveðið var að stækka fyrirtækið og flytja upp á Höfða. Gjarnan er vísað í starfstímann á Óðinsgötu sem „Gamla Glits“ og tímans uppi á Höfða sem „Stóra Glits“.
Listræn fósturmiðstöð
Listrænn metnaður stjórnenda Glits var mikill þegar fyrirtækið var stofnað. Hugmyndir um að færa út kvíarnar og hefja útflutning, gerðu það að verkum að hvergi var slegið af kröfum um að standast fyllilega allan samanburð. Margir af okkar þekktustu listamönnum á 20. öld unnu hjá Gliti til lengri eða skemmri tíma og minnast þess tíma sem mikilvægrar „listrænnar fósturmiðstöðvar“ þegar Ragnar sá um framleiðsluverkstæði Glits við Óðinsgötu. Breytingar á áherslum og vilji til að auka framleiðslugetu og tæknivæða hana leiddi til þess að Glit breytti um gír og iðnvæddist og tók framleiðslan nýja stefnu úr lista- og hönnunarsögu Íslands inn í sjálfa iðnaðarsögu Íslands.
Íslenskur leir og saga leirtöku
Á sýningunni er fjöldi muna frá Gliti, bæði af Óðinsgötunni (starfrækt þar frá 1958-1971) og ofan af Höfða. Þá verða skil í framleiðslunni þegar listræn stjórnun fluttist frá Ragnari Kjartanssyni til þýska leirlistamannsins Gerhard Schwarz, sem tók við af Ragnari árið 1968.
Auk muna frá Gliti verður íslenskur leir sýndur og sagt frá sögu íslenskrar leirtöku hjá Gliti. Íslenskir leirlistamenn munu renna á sýningunni á völdum dögum. Fylgist með á Facebook eða heimasíðu safnsins.
Verið velkomin!
www.honnunarsafn.is