12. nóv. 2012

Ráðstefna um skólamál

Ársþing Samtaka áhugafólks um skólaþróun var haldið í Lækjarskóla í Hafnarfirði 9.–10. nóvember 2012. Á ráðstefnunni voru meðal annars kynnt nokkur verkefni frá Garðabæ sem hlutu styrk úr Sprotasjóði í fyrra. Fyrst má þar nefna verkefnið Lesmál - Sögu og samræðustundir í leikskólum Garðabæjar.
  • Séð yfir Garðabæ

Ársþing Samtaka áhugafólks um skólaþróun var haldið í Lækjarskóla í Hafnarfirði 9.–10. nóvember 2012. Þingið var haldið í samvinnu við Sprotasjóð mennta- og menningarmálaráðuneytisins.  Á þinginu voru kynnt tæplega 50  þróunarverkefni frá öllum skólastigum sem fengið hafa styrk úr Sprotasjóði á undanförnum árum. Um 200 þátttakendur sóttu þingið sem bar yfirskriftina Vaxtarsprotar í skólastarfi.   

Þróunarverkefni Garðabæjar kynnt á ráðstefnunni

Á ráðstefnunni voru meðal annars kynnt nokkur verkefni frá Garðabæ sem hlutu styrk úr Sprotasjóði í fyrra.  Fyrst má þar nefna verkefnið Lesmál - Sögu og samræðustundir í leikskólum Garðabæjar.  Anna Magnea Hreinsdóttir leikskólafulltrúi kynnti verkefnið en markmið þess var að þróa markvissar sögu- og samræðustundir í leikskólum Garðabæjar, stuðla að auknum hlustunar- og málskilningi barna, auka orðaforða þeirra, hugtakaskilning og tjáningu.  Einnig var markmið verkefnisins að fræða foreldra leikskólabarna og styðja í hlutverki sínu í málörvun barna. 

Lesmál - glærukynning (pdf-skjal)

Annað verkefni sem var kynnt á ráðstefnunni var HljómListarverkefni sem var haldið veturinn 2011 til 2012 og var undanfari Listadaga barna og ungmenna í Garðabæ. Markmið verkefnisins var að efla nýsköpun og hönnun í námsumhverfi barna í leik- og grunnskólum í Garðabæ.  Árdís Olgeirsdóttir fræðslufulltrúi hönnunar og Hulda Hauksdóttir upplýsingafulltrúi sögðu frá námsstefnum fyrir kennara í nýsköpun og frumkvöðlamennt, námsstefnum í hljóðfærasmíði fyrir nemendur og kennara og hvernig afurðum þemavinnunnar var miðlað á Listadögum barna og ungmenna.

HljómList - glærukynning (pdf-skjal)

Brynhildur Sigurðardóttir, aðstoðarskólastjóri Garðaskóla, kynnti verkefni sem nefndist Heimspekileg samræða með börnum. Skólaárið 2011-2012 var skipulögð dagskrá til að kynna kennurum í leik- og grunnskóla heimspekilega samræðu sem kennsluaðferð og þjálfa þá til að nota hana í eigin kennslu. Í erindinu var sagt frá þeim verkefnum sem kennurum var boðin þátttaka í, árangri af þessum verkefnum og áskorunum við innleiðingu heimspekilegrar samræðu í leik- og grunnskóla. Einnig var fjallað um hlutverk heimspekilegrar samræðu við innleiðingu grunnþátta nýrrar aðalnámskrár.

Heimspekileg samræða með börnum (pdf-skjal)

Þess má einnig geta að Fjölbrautaskólinn í Garðabæ kynnti verkefni á ráðstefnunni sem fjallaði um Hönnunar- og markaðsbrautina við skólann. Það voru þær Tinna Ösp Arnardóttir viðskipta- og markaðsgreinakennari og Ásdís Jóelsdóttir kennari í fata- og textílhönnunargreinum sem sögðu frá þessari nýju braut við FG.