23. okt. 2012

ReMake Electric slær í gegn

ReMake Electric sem hóf starfsemi í Kveikjunni var valið helsta fjárfestingartækifæri í Evrópu árið 2012
  • Séð yfir Garðabæ

Íslenska hátæknifyrirtækið ReMake Electric stóð upp úr í alþjóðlegu mati á evrópska orkubúnaðar- og tæknigeiranum sem helsta fjárfestingartækifæri í Evrópu árið 2012.

Byrjaði í Kveikjunni

ReMake Electric var eitt af fyrstu fyrirtækjunum sem fékk aðstöðu í frumkvöðlasetrinu Kveikjunni, sem rekið er af Garðabæ, Hafnarfjarðarbæ og Nýsköpunarmiðstöð Íslands. ReMake Electric hannar, framleiðir og markaðssetur nýja mæli- og tölvubúnaði auk hugbúnaðar fyrir raforkueftirlit til að ná fram sparnaði og nýtni í raforkunotkun segir í tilkynningu.

Samhæfa nýja tækni við núverandi kerfi

Matið fór fram hjá markaðs- og ráðgjafarisanum Frost & Sullivan sem starfar í 6 heimsálfum, en verðlaunin eru hluti af árlegu „Best Practices Awards“ frá Frost & Sullivan í Evrópu. Á vef Nýsköpunarmiðstöðvar er haft eftir matsmanni frá Frost & Sullivan að sá eiginleiki að samhæfa nýja tækni við núverandi raföryggiskerfi sé lykilatriði í árangri ReMake Electric

Lét draumana rætast

Á vef Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands segir m.a. um stofnanda ReMake Electric.

"Hilmir Ingi (Jónsson) er mjög gott dæmi um frumkvöðul sem lætur drauma sína rætast. Hann hóf að vinna með viðskiptahugmynd sína fyrir tæpum fimm árum síðan þegar hann stóð frammi fyrir atvinnuleysi í faggrein sinni sem rafvirki. Þá sótti hann um aðsetur í frumkvöðlasetrinu Kveikjunni í Hafnarfirði sem rekið er af Garðabæ, Hafnarfjarðabæ og Nýsköpunarmiðstöð Ísland. Þar vann hann ötullega að hugmynd sinni í skapandi umhverfi frumkvöðla í sambærilegri stöðu, nýtti sér alla þjónustu sem í boði var í stuðningsumhverfi frumkvöðla og þróaði smá saman þá viðskiptahugmynd sem ríkir á bak við fyrirtækið Remake Electric."

ReMake Electric hefur í dag 45 starfsmenn og hefur komið sér fyrir í húsnæði í Kópavogi.

Frétt á vef Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands um árangur ReMake Electric

Á Facebook síðu Garðabæjar er myndband frá árinu 2010 þar sem Hilmir Ingi fjallar um um starfsemi fyrirtækis síns og starfið í Kveikjunni.