10. jún. 2012

Sögu- og samræðustundir

Þriggja ára þróunarverkefni um sögu- og samræðustundir er nú að ljúka í leikskólum Garðabæjar. Verkefnið var styrkt af Sprotasjóði menntamálaráðuneytis en hlutverk hans er að styðja við þróun og nýjungar í skólastarfi í leik-, grunn- og framhaldsskólum. Markmið Lesmálsverkefnisins var annars vegar að þróa markvissar sögu- og samræðustundir í leikskólum Garðabæjar
  • Séð yfir Garðabæ
Lesmál – þróunarverkefni um sögu og samræðustundir í leikskólum

Þriggja ára þróunarverkefni um sögu- og samræðustundir er nú að ljúka í leikskólum Garðabæjar.  Verkefnið var styrkt af Sprotasjóði menntamálaráðuneytis en hlutverk hans er að styðja við þróun og nýjungar í skólastarfi í leik-, grunn- og framhaldsskólum. Markmið Lesmálsverkefnisins var annars vegar að þróa markvissar sögu- og samræðustundir í leikskólum Garðabæjar. Þeim er ætlað að  stuðla að auknum hlustunar- og málskilningi barna, auka orðaforða þeirra, hugtakaskilning og tjáningu. Hins vegar var markmið verkefnisins að fræða foreldra leikskólabarna og styðja í hlutverki sínu í málörvun barna.


Lestur sagna og samræður í leikskóla er mikilvæg forsenda læsis svo og hlutverk foreldra í mál- og læsisþroska barna. Rannsóknir hafa sýnt fylgni milli orðaforða barna í leikskóla og einkunna í lestri í grunnskóla og því er mikilvægt að grípa snemma inn í. Einnig hafa rannsóknir sýnt mikinn einstaklingsmun á frásagnahæfni barna sem er mikilvægur hluti málþroska þeirra.  


 

Aðdragandi verkefnis

Frá árinu 1997 hefur markvisst verið unnið að þjálfun málmeðvitundar og hljóðkerfisvitundar barna með hlustunar-, rím- og orðaleikjum ásamt hljóðgreiningu og tengingu í leik í leikskólum í Garðabæ. Árið 2006 var samþykkt sérstök lestrarstefna fyrir Garðabæ en helstu áhersluatriði í lestrarstefnunni eru að upplýsa foreldra og uppalendur um  mikilvægi lestrar. Einnig að vekja athygli foreldra og uppalenda  á hve þáttur þeirra í lestri barna er mikilvægur  og hvetja þá til virkrar þátttöku. Lögð er áhersla á að í leikskólum sé stuðlað að því að ung börn fái sem mesta  málörvun og hvatningu til tjáningar og að skapa umhverfi sem vekur áhuga barna á lestri og gerir þau meðvituð um ritað mál.Verkefnið féll því vel að því starfi sem þegar var unnið í  leikskólum í Garðabæ.

Markvissar sögu- og samræðustundir í leikskólum

Áhugi var á því að gera sögustundir markvissar og vel undirbúnar þar sem bóklestur í sögustundum í leikskólum er talinn hafa jákvæð áhrif á málþroska, bernskulæsi og lestrarfærni. Þar er tungumálið í aðalhlutverki. En ekki sama hvernig lesið er. Samræður eru mikilvægur liður í sögustundum. Börn þurfa að vera þátttakendur í hópi þar sem bæði er talað og hlustað. Því er mikilvægt að þjálfa kennara  í sögulestri og samræðum og að gera aðgengi barna að bókum gott.

 

Hlutverk foreldra

Hvað varðar hlutverk foreldra ungra barna í málörvun þeirra þá felst það fyrst og fremst í góðri fyrirmynd, samræðum og lestri. Börn sem hafa greiðan aðgang að fólki sem ræðir við þau, les fyrir þau og kennir þeim ný orð og hugtök eiga öllu jöfnu auðveldara með að ná tökum á lestri. Orðaforða læra börn ekki síst hjá foreldrum sínum og samræður og lestrastundir með fjölskyldunni leggja grunn að bernskulæsi.   

Bæklingur og bókamerki

Gefin hefur verið út leiðbeiningarbæklingur fyrir foreldra sem dreift verður í leikskólum og bókasafninu vor og sumar 2012. Einnig hefur verið hannað bókamerki fyrir kennara og aðra um helstu atriði í markvissum sögu- og samræðustundum.


 

Skýrsla um þróunarverkefnið Lesmál

Lokaskýrslu um framkvæmd verkefnisins má nálgast hér (pdf-skjal).