18. maí 2012

Allir fá vinnu í Garðabæ

Öll ungmenni sem búa í Garðabæ og sóttu um sumarstarf hjá bænum hafa fengið tilboð um starf í sumar
  • Séð yfir Garðabæ

Öll ungmenni sem sóttu um sumarstarf hjá Garðabæ hafa fengið tilboð um starf í sumar. Alls eru þetta ríflega 400 ungmenni frá 17 ára aldri.

Þetta er fjórða árið í röð sem bæjarstjórn Garðabæjar ákveður að bjóða öllum ungmennum, búsettum í bænum, sumarstarf. Stærsti hluti hópsins tekur þátt í skógræktarátaki sem fer að mestu fram í upplandi Garðabæjar, í Heiðmörk, í friðlandi Vífilsstaða og á fleiri svæðum í landi bæjarins.

Aðrir starfa við leikja- og íþróttanámskeið hjá félögum í Garðabæ, við garðyrkjudeild bæjarins eða í öðrum stofnunum hans, sem flokksstjórar í Vinnuskóla eða í skógræktarátaki, við almenn verkamannastörf hjá þjónustumiðstöðinni o.fl. Einnig verður starfandi hópur á sviði lista og menningar.

Skilar góðum árangri

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri segir að reynslan af því að bjóða öllum sem sækja um vinnu sumarstarf sé góð og því hafi bæjarstjórn ákveðið að hafa sama hátt á í sumar. "Við sjáum víða merki þess í bæjarlandinu að hafa haft öfluga hópa starfsmanna undanfarin sumur að vinna við umhirðu og fegrun bæjarlandsins. M.a. var í fyrra unnið mikið í útivistarstígum ofan byggðar, eldri stígar lagfærðir t.d. í Vífilsstaðahlíð og unnið að nýjum stígum t.d. í Smalaholti. Almennt hefur bærinn verið snyrtilegur og ekki síst hafa ungmennahóparnir sett skemmtilegan svip á bæinn."

Ungmenni sem taka þátt í skógræktarátakinu fá vinnu í 7-8 vikur í sumar. Þau sem eru 17 ára (fædd 1995) vinna í 6 tíma á dag en 18 ára og eldri vinna í 7 tíma á dag.

Gönguleiðin í Búrfellsgjá endurnýjuð

Á myndinni sést stigi á gönguleiðinni í Búrfelllsgjá en hún er dæmi um afrakstur sumarstarfa 2011. Gönguleiðin var í lélegu ástandi og þar var í fyrra unnið að verulegum bótum. M.a. var timburstigi sem er niður um Hjallamisgengið endurnýjaður. Þórir smiður hjá garðyrkjudeild Garðabæjar sá um smíði á nýja stiganum ásamt hópi ungmenna úr skógræktarátakinu. Hópurinn lagfærði einnig stíginn ofan Hjallamisgengis frá enda Vífilsstaðahlíðar og niður frá stiganum að Búrfellsgjá. Þessi stígur var orðinn úr sér genginn með miklu grjóti í yfirborði sem var hreinsað upp.