3. maí 2012

Sögugöngur í Garðabæ

Bókasafnið í samstarfi við menningar- og safnanefnd Garðabæjar bryddar upp á þeirri nýjung nú á vordögum að bjóða í sögugöngur þar sem gengið er um Garðabæ og Vífilsstaði og um leið fjallað um bækur þar sem sögusviðið er Garðabær og nágrenni.
  • Séð yfir Garðabæ

Bókasafnið í samstarfi við menningar- og safnanefnd Garðabæjar bryddar upp á þeirri nýjung nú á vordögum að bjóða í  sögugöngur þar sem gengið er um Garðabæ og Vífilsstaði og um leið fjallað um bækur þar sem sögusviðið  er Garðabær og nágrenni.  Fyrstu göngurnar verða farnar þann  5. og 8. maí nk.

Garðbæingar eru hvattir til að koma með í sögugöngurnar, fræðast og kynnast um leið umhverfi sínu betur. Allir eru velkomnir í göngurnar.

Kristín Helga  Gunnarsdóttir – söguganga laugardaginn 5. maí kl. 11

Laugardaginn 5. maí verður gengið með Kristínu Helgu Gunnarsdóttur um sögusvið bókanna um Binnu og Móa hrekkjusvín, en þær sem  gerast í Garðabæ, nánar tiltekið í Silfurtúni. Kristín Helga segir frá tilurð bókanna og skoðar Garðahreppinn sem breyttist í bæ.  Einnig verður spjallað um barnið í úthverfinu út frá veröld Fíusólar.   Þetta er hugsað sem fjölskylduganga sem bæði börn og fullorðnir geta tekið þátt í og haft gaman af.
Lagt verður af stað frá bókasafninu kl. 11.

Kristín Helga Gunnarsdóttir er fædd 1963. Hún nam spænsku við háskólana í Reykjavík og Barcelona, og lauk prófi í fjölmiðlafræði við háskólann í Utah í Bandaríkjunum. Hún hefur starfað sem fararstjóri, flugfreyja og fréttamaður, fyrst á Bylgjunni og síðan á Stöð 2.
Frá árinu 1998 hefur Kristín Helga alfarið sinnt ritstörfum. Fyrstu bækur Kristínar Helgu Gunnarsdóttur voru Elsku besta Binna mín (1997) og Bíttu á jaxlinn Binna mín (1998) en þær slógu rækilega í gegn og komu Kristínu Helgu strax í hóp vinsælustu barnabókahöfunda landsins.

Kristín Helga hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar og verðlaun fyrir bækur sínar.
Árið 2001 hlaut Kristín Helga Barnabókaverðlaun fræðsluráðs Reykjavíkur fyrir bókina um Móa hrekkjusvín og sama ár var hún valin Bæjarlistamaður Garðabæjar.  Hún hefur fengið Bókaverðlaun barnanna  fjórum sinnum og   árið 2004 hlaut hún viðurkenningu Ibby á Íslandi fyrir bækurnar Strandanornir: galdrasaga af Ströndum og Í Mánaljósi.

 

Einar Már Guðmundsson – söguganga þriðjudaginn 8. maí

Þriðjudaginn  8. maí verður farið í göngu með Einari Má Guðmundssyni  rithöfundi um Vífilsstaði. Lagt verður af stað frá bókasafninu kl. 16:30 en einnig er hægt að mæta beint á Vífilsstaði kl. 17:15. Í sögugöngunni mun Einar fjalla um tilurð og sögusvið bókar sinnar Draumar á Jörðu sem gerist að miklu leyti á Vífilsstöðum.  Sagan segir frá Sæunni sem liggur fyrir dauðanum á berklahælinu að Vífilsstöðum. Fyrirmynd hennar er Guðbjörg Guðmundsdóttir, föðursystir skáldsins, sem dó aðeins tuttugu og fjögurra ára gömul.Bókin er ein þriggja bóka Einars úr sagnaflokki sem út kom á árunum 1997- 2002. Þetta eru bækurnar Fótspor á himnum (1997) Draumar á Jörðu (2000) og Nafnlausir dagar (2002) 

Einar Már lauk B.A. prófi í bókmenntum og sagnfræði frá Háskóla Íslands 1979. Hann stundaði  framhaldsnám í bókmenntafræði við Kaupmannahafnarháskóla og gaf á þeim árum út sínar fyrstu bækur. Skáldferill  hans spannar nú ríflega þrjá áratugi og framan af var ljóðagerð í forgrunni. 
En með verðlaunaskáldsögu sinni Vængjasláttur í þakrennum (1983) hófst  glæstur skáldsagna-höfundarferill hans sem ekki sér fyrir endann á.

Einar Már er í hópi virtustu og vinsælustu rithöfunda þjóðarinnar og hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir ritstörf sín og má þar nefna bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið  1995 fyrir bókina Englar alheimsins og nú í ár Norrænu bókmenntaverðlaunin (2012), en þau  þykja einhver mesti heiður sem norrænum rithöfundi getur hlotnast og eru gjarnan nefnd  „litli Nóbelinn".