15. mar. 2012

Framúrskarandi lesskilningur í Garðaskóla

Lesskilningur nemenda Garðaskóla er áberandi betri en gerist á landsvísu og þar mælist ekki marktækur munur á lesskilningi stúlkna og drengja, samkvæmt niðurstöðum síðustu PISA könnunar
  • Séð yfir Garðabæ

Lesskilningur nemenda Garðaskóla er áberandi betri en gerist á landsvísu og þar mælist ekki marktækur munur á lesskilningi stúlkna og drengja, samkvæmt niðurstöðum síðustu PISA könnunar. Að meðaltali voru stúlkur í Garðaskóla 33 stigum hærri í prófinu en stúlkur á landinu í heild og drengir í Garðaskóla voru 57 stigum hærri en drengir á landsvísu. Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar 2009 eru 93% nemenda í Garðaskóla með góðan lesskilning. Margt bendir til þess að drengir í Garðaskóla fái meiri þjálfun en gengur og gerist á unglingastigi í öðrum skólum.


Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem unnin var af Almari M. Halldórssyni, sérfræðingi á Námsmatsstofnun, fyrir Garðabæ, þar sem niðurstöður PISA könnunarinnar árið 2009 eru greindar út frá árangri kynjanna. Niðurstöður samsvarandi úttektar fyrir Reykjavíkurborg voru kynntar síðastliðið haust. PISA (Programme for International Student Assessment) er alþjóðleg könnun á vegum OECD sem lögð er fyrir á þriggja ára fresti. Í könnuninni er lesskilningi skipt í 6 hæfnisþrep. Nemendur sem ekki ná 2 hæfnisþrepi teljast ekki geta lesið sér til gagns, sem þýðir að þeir skilja í sumum tilvikum ekki megininntak lesins texta.

Tvöfalt fleiri drengir í Garðaskóla yfir meðallagi

Áberandi betri lesskilningur í Garðaskóla en á landsvísu lýsir sér bæði í því að mun færri nemendur Garðaskóla eru í neðstu þrepunum og fleiri í efstu þrepunum en gengur og gerist. Aðeins 7% nemenda í Garðaskóla eru fyrir neðan hæfnisþrep 2 og enginn nemandi neðar en 1a. Ef horft er sérstaklega á árangur drengja sést að áberandi færri drengir í Garðaskóla eru fyrir neðan hæfnisþrep 2 í lesskilningi en á landinu öllu og tvöfalt fleiri eru á hæfnisþrepi 4, þ.e. yfir meðallagi.

Fá meiri þjálfun en í öðrum skólum


Í tengslum við PISA könnunina eru lestrar- og námsvenjur nemenda skoðaðar. Kemur þar m.a. fram að drengir í Garðaskóla lesa fjölbreyttara efni og nota bókasöfn meira en nemendur annarra skóla. Í skýrslu Námsmatsstofnunar kemur fram að áberandi sé að í Garðaskóla lesi nemendur meira af bókmenntum sem og ósamfelldum texta auk þess að vinna meira með túlkun bókmenntatexta. Þá kemur í ljós að skipulag náms og betri námstækni í skólanum, tengjast auknum lesskilningi hjá drengjum en ekki hjá stúlkum. Hins vegar tengist meiri ánægja af lestri og aukin fjölbreytni í lesefni utan skólans frekar auknum lesskilningi stúlkna en drengja. Höfundur skýrslunnar bendir á að þarna geti verið komin skýringin á afburða lesskilningi drengja í Garðaskóla, þ.e. að þeir fái meiri þjálfun en gengur og gerist á unglingastigi í öðrum skólum.

 

Skýrsla um kynjamun í grunnskólum Garðabæjar

Umfjöllun um niðurstöður skýrslunnar í Morgunútvarpi Rásar 2 16. mars 2012