23. sep. 2024

Nýr stígur í einstakri náttúru í Vífilsstaðahrauni

Í Garðabæ eru fjölmargir hjóla- og göngustígar sem eru hluti af samgönguneti Garðabæjar. Nýr stígur í Vífilsstaðahrauni, á milli Urriðaholts og Vífilsstaða, er nýleg viðbót við það net.

  • Nýr stígur í einstakri náttúru
    Í Garðabæ eru fjölmargir hjóla- og göngustígar sem eru hluti af samgönguneti Garðabæjar. Nýr stígur í Vífilsstaðahrauni, á milli Urriðaholts og Vífilsstaða, er frábær viðbót við það net.

Vífilsstaðahraun er friðlýst sem fólkvangur. Markmiðið með friðlýsingunni er að vernda landslag hraunsins og hlífa þessu dýrmæta útivistarsvæði í þéttbýli.

Í byrjun sumars var tekinn til notkunar nýr stígur sem liggur í birkiskóglendi í Vífilsstaðahrauni, milli Urriðaholtsstrætis og undirganganna við Vífilsstaði, rétt austan við Reykjanesbraut. Stígurinn er þriggja metra breiður og rúmur kílómetri að lengd. Hann er upplýstur og malbikaður fyrir gangandi og hjólandi umferð innan hraunsins.

_IMG_0196

Með tilkomu þessa nýja stígs myndast tenging á milli Urriðaholts og íþróttasvæðis í Vetrarmýri, einnig tenging við stíg sunnan Vífilsstaða sem tengist núverandi göngustígum í Garðahrauni.

Af hverju er stígurinn hlykkjóttur?

Tillit var tekið til hraunmyndana og gróðurs við gerð stígsins. Við ákvörðun á legu hans voru loftmyndir skoðaðar vandlega, einnig þrívíddargrunnur og drónamyndir af svæðinu. Þar að auki var farið í vettvangsferðir með aðkomu sérfræðinga Umhverfisstofnunar.

2_1727105085062

Rauða línan sýnir hvernig stígurinn liggur.

_IMG_0199

Náttúrufræðistofnun Íslands tók að sér að skoða svæðið með friðaðar plöntur og plöntur á válista í huga til að tryggja að slíkar sjaldgæfar plöntur yrðu ekki í stíglínunni. Engar friðaðar tegundir eða tegundir á válista fundust í stíglínunni. Náttúrufræðistofnun lagði til að stærstu og elstu birkitrjám og reynitrjám yrði hlíft eins og hægt er við lagningu stígsins.

_IMG_0209