19. jún. 2020

Nýtt aðkomutákn Garðabæjar á Arnarneshálsi

Nýtt aðkomutákn Garðabæjar sem markar aðkomu að bænum hefur verið sett upp vestan megin við Hafnarfjarðarveg á Arnarneshálsi

Nýtt aðkomutákn Garðabæjar sem markar aðkomu að bænum hefur verið sett upp vestan megin við Hafnarfjarðarveg á Arnarneshálsi. Verkið er fléttað saman úr þremur jafnstórum flötum römmum í þrívítt verk. Aðkomutáknið var valið í hugmyndasamkeppni Garðabæjar og Hönnunarmiðstöðvar Íslands á meðal hönnuða og myndlistarmanna árið 2016 þegar Garðabær fagnaði 40 ára kaupstaðarafmæli. Vinningstillagan sem nú er risin kom frá Teiknistofunni Tröð og var unnin af Sigríði Magnúsdóttur arkitekt FAÍ, Hans-Olav Andersen arkitekt FAÍ, Magnúsi Andersen ljósmyndara og Nínu Solveigu Andersen. VSÓ sá um hönnun og ráðgjöf varðandi verkþætti við táknið sjálft, vegrið, jarðvinnu, burðarvirki og rafmagn, Loftorka sá um undirstöður og uppsetningu á verkinu á staðnum og Járnsmiðja Óðins smíðaði burðarvirkið í verkinu.

Fimmtudaginn 18. júní var aðkomutáknið vígt þegar það leysti með formlegum hætti af hólmi skilti sem var komið til ára sinna og markaði aðkomu að Garðabæ. Við athöfnina voru m.a. bæjarstjóri Garðabæjar, bæjarfulltrúar, hönnuðir, verktakar og fulltrúar úr dómnefnd um aðkomutáknið.  Bæjarstjóri, Gunnar Einarsson, Sigríður Hulda Jónsdóttir, formaður dómnefndar, auk bæjarfulltrúa afhjúpuðu nafn Garðabæjar á stöpli táknsins. Stafirnir verða upplýstir sem og táknið sjálft og því sést það vel þegar keyrt er inn í Garðabæ eftir Hafnarfjarðarvegi. Í lok athafnarinnar tóku Gunnar og Björg Fenger, varaforseti bæjarstjórnar, gamla merkið, sem staðið hefur um áraraðir á sama stað, niður.

Á næstu misserum verður aðkomutákninu komið upp í mismunandi stærðum á fleiri stöðum í bænum. En hægt er að útfæra táknið úr mismunandi efnum og ólíkum stærðum eftir því hvað hentar best á hverjum stað. Í hugmyndasamkeppninni um aðkomutáknið sagði m.a. í rökstuðningi dómnefndar um vinningstillöguna „Í verkinu felast margræðar skírskotanir til samfélags fólks og náttúru þar sem einfalt form er sett saman á listrænan hátt svo það myndar flókið samspil. Verkið getur vísað til ólíkra sjónarhorna og það rammar inn síbreytilega náttúru innan bæjarfélags sem er í sókn og vexti. Auðkennismarkið er óvænt og djörf útfærsla sem getur dregið til sín athygli og sómt sér vel í landslagi.“

Adkomutakn-2020-1