24. sep. 2021

Samstarf um mat á gæðum leikskólastarfs

Hafnarfjörður, Mosfellsbær og Garðabær hafa tekið höndum saman um að vinna þróunarverkefni með Menntavísindasviði Háskóla Íslands um mat á innra starfi í leikskólum. 

  • Leikskólinn Lundaból
    Leikskólinn Lundarból í Garðabæ.

Hafnarfjörður, Mosfellsbær og Garðabær hafa tekið höndum saman um að vinna þróunarverkefni með Menntavísindasviði Háskóla Íslands um mat á innra starfi í leikskólum. Þróunarverkefnið er í takti við tillögur starfshóps um styrkingu leikskólastigsins sem gefin var út í águst 2021. Þar er lögð áhersla á að styrkja innra mat leikskóla og auka þekkingu á sviði innra mats. Þróunarverkefninu lýkur í maí 2022.
Verkefnisstjóri er Dr. Anna Magnea Hreinsdóttir.

Í skilgreiningu á gæðum í leikskólastarfi þarf að huga að því sem við viljum fyrir börnin okkar og hvernig við skilgreinum gott líf. Skilgreining á gæðum og gæðaviðmiðum er mikilvægur þáttur í sameiginlegu þróunarverkefni leikskóla í Garðabæ, Hafnarfirði og Mosfellsbæjar um innra mat leikskólastarfs sem hófst í dag með fjarfundi stjórnenda leikskólanna. Mat á leikskólastarfi er ætlað að leggja faglegan grundvöll að starfinu, styðja við skólaþróun og sýna með gögnum hvernig gæðaviðmiðum er náð.

Byggir verkefnið á hugmyndum um lærdómssamfélag jafningja þar sem skapaður er vettvangur fyrir stjórnendur leikskólanna fyrir samtal um framkvæmd mats og gerð umbótaáætlana og eftirfylgd með þeim. Stjórnendur leikskólanna hafa unnið að gerð innra mats sem er gagnlegt að deila með öðrum stjórnendum, skiptast á skoðunum og ígrunda hvernig staðið er að innra mati í leikskólunum. Gert er ráð fyrir því að stjórnendur hittist mánaðarlega og á milli funda vinna þeir verkefni með samstarfsfólki sem allir miða að því að móta kerfisbundið innra mat hvers leikskóla. Skilgreindir verða verkþættir sem leiða munu verkefnið með áherslu á ákveðna afmarkaða þætti innra mats með það fyrir augum að mat verði samþætt öðru starfi leikskólans. 

Áætlað er að mynda gagnabanka með matsaðferðum sem falla vel að leikskólastarfi og lýðræðislegri þátttöku starfsfólks, barna og foreldra og þá með sérstaka áherslu á matsaðferðir sem henta börnum á leikskólaaldri. Gert er ráð fyrir að innra mat á leikskólastarfi stuðli að aukinni þekkingu og skólaþróun innan leikskólastigsins. Slík þekking og þróun eykur á merkingarbærni leikskólans sem fyrsta skólastigsins.