Sérlega spennandi og fjölbreytt menningardagskrá fram undan
Ólöf Breiðfjörð, menningarfulltrúi Garðabæjar, lofar afar spennandi menningadagskrá á næsta ári þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.
Ólöf Breiðfjörð, menningarfulltrúi Garðabæjar, er konan á bak við menningardagskrá Garðabæjar sem hefur verið afar spennandi og glæsileg undanfarið og verður það svo sannarlega áfram.
Ólöf hefur haft í nógu að snúast undanfarið, bæði við að hrinda hinum ýmsu menningarviðburðum í framkvæmd og sömuleiðis að undirbúa dagskrá fyrir næsta ár.
„Við ljúkum árinu með árlegum jólatónleikum í Vídalínskirkju sem eru samvinnuverkefni Þýska sendiráðsins, Garðabæjar, kirkjunnar og Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Tónleikarnir fara fram föstudagskvöldið 13. desember og að þessu sinni koma fram algjörar kanónur, það er Kristinn Sigmundsson, Hallveig Rúnarsdóttir, Hildigunnur Einarsdóttir og Gissur Páll Gissurarson. Þau munu syngja jólalega tónlist og í sumum lögum tekur Mótettukórinn undir en kórinn syngur líka nokkur lög á tónleikunum. Þá finnst mér sérlega gaman að hafa fengið Garðabæjaryndin Einar Örn Magnússon og Matthías Helga Sigurðarson til að flytja tvö lög í anda Ragga Bjarna en Einar Örn er langafastrákurinn hans Ragga. Þegar þessum tónleikum lýkur er orðið rólegt í viðburðahaldi og nýr bæklingur með dagskrá vorannar farinn í prentun og þá er hægt að fara að slaka aðeins á,“ segir Ólöf þegar hún er spurð út í það helsta sem er fram undan í menningunni í Garðabæ.
Spennandi nýjung á Hönnunarsafninu
Það er alltaf eitthvað nýtt og spennandi í boði hvað menningu í bænum varðar. Það má til dæmis nefna hádegishitting með hönnuði sem dæmi en það er nýjung sem hefst í febrúar á næsta ári.
„Hádegishittingur með hönnuði en nýjung á Hönnunarsafninu sem er gríðarlega gaman að bjóða upp á. Við erum með heitt á könnunni og bjóðum upp á molasopa yfir spjalli með nokkrum frábærum hönnuðum. Hittingurinn er í hverjum mánuði, einn miðvikudag í mánuði klukkan 12:15 og hugmyndin er að kynna gestum fyrir ólíkum viðfangsefnum hönnuða en við byrjum í febrúar á spjalli með Þórunni Árnadóttur vöruhönnuði, í mars er svo spjall um skráningu á verkum grafíska hönnuðarins Gísla B. Björnssonar sem nýverið fékk heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands. Í apríl ætlar svo Tinna Gunnarsdóttir að fjalla um sín verk og föður síns Gunnars Magnússonar húsgagnahönnuðar en húsgögn eftir hann eru komin aftur í framleiðslu og verður gaman að heyra Tinnu segja frá. Lokahittingurinn verður svo í maí en þá ætlar Hringur Hafsteinsson hjá Gagarín að segja frá frábærum verkefnum sem hann hefur m.a. unnið að í Garðabæ,“ útskýrir Ólöf.
Hringur Hafsteinsson sem hafði yfirumsjón með nýrri sýningu í Minjagarðinum á Hofsstöðum
„Við vonum að allskonar fólk mæti á hádegishittingana, áhugafólk um hönnun eða bara fólk sem vill víkka sjóndeildarhringinn og njóta menningar í hjarta Garðabæjar.
Nóg í boði fyrir börnin
Að venju verður svo af nægu að taka fyrir yngstu kynslóðina. „Það eru alltaf frábærar smiðjur fyrir alla fjölskylduna fyrsta sunnudaginn í mánuði í Hönnunarsafninu og eftir að við fengum Siggu Sunnu safnkennara til liðs við okkur hafa smiðjurnar endanlega slegið í gegn. Það er til dæmis frábært að fá að gera skartgripi í smiðju í byrjun febrúar eða hitta bæjarlistamanninn Hans Jóhannsson fiðlusmíðameistara og sjá hvað hann býður upp á í smiðju fyrir alla fjölskylduna. Það sem fæstir gera sér hins vegar grein fyrir er sú gríðarlega dagskrá sem í boði er fyrir skólahópa en á vorönn munu til dæmis allir 4. bekkingar í Garðabæ vinna að sýningu sem verður liður í HönnunarMars og Barnamenningarhátíð í Garðabæ en titill sýningarinnar verður Barbieboð á Hönnunarsafninu. Þá munu nemendur á miðstigi læra allt um jazztónlist á frábærum tónleikum þar sem Margrét Eir syngur með nokkrum eðaljazzörum.“
Jazzbadazz með Margréti Eir og jazzsveit
Bæjarlistamaður Garðabæjar Hans Jóhannsson fiðlusmíðameistari tekur við hamingjuóskum frá bæjarstjóra
Sigga Sunna safnkennari Hönnunarsafnsins leiðbeinir tveimur grunnskólanemum
Jazzþorpið mesta gleðisprengjan
Það er óhætt að segja að það verði nóg um að vera fyrir menningarþyrsta á næstu misserum. En er eitthvað sem Ólöf sjálf er alveg sérstaklega spennt fyrir?
„Sko, ég er mjög spennt fyrir öllu sem boðið er upp á fyrir fólk á öllum aldri í Garðabæ enda legg ég hjarta mitt í að vanda dagskrána en ef ég á að pikka eitthvað út þá segi ég Pöddusmiðju á Bókasafninu þann 18. janúar með Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur sem er frábær myndhöfundur og nýverið kom út bókin Stórkostlega sumarnámskeiðið og Pöddusmiðjan tengist þeirri bók. Svo hlakka ég mikið til hádegistónleikaraðarinnar Tónlistarnæringu á vorönn en við fáum til dæmis að njóta þess að hlusta á hljóðfæri sem bæjarlistamaðurinn Hans Jóhannsson smíðaði en þeir tónleikar verða 5. mars en þess má geta að Tónlistarnæring fer fram fyrsta miðvikudag í mánuði. Ég get auðvitað ekki sleppt því að minnast á eitthvað uppáhalds í Hönnunarsafninu en ég sjálf er spennt fyrir dansleiðsögn með dansaranum og hönnuðinum Siggu Soffíu og Sigríði Sigurjóns safnstjóra en gestir læra nokkur góð spor um leið og þeir fræðast um gripina á sýningunni en dansleiðsögnin fer fram 18. maí. Þegar þar verður komið á vorönn verður Jazzþorpið í Garðabæ nýyfirstaðið en það er auðvitað eitt allra viðamesta verkefnið á árinu og alltaf ótrúlega gefandi að vinna með Ómari Guðjónssyni, Kristínu Guðjóns, Hans Vera og Höllu Kristjáns en saman myndum við Jazzþorpsgengið. Það gerast alltaf töfrar þegar þorpið rís eftir margra mánaða undirbúning og þó við séum alveg búin á því þá er Jazzþorpið ein mesta gleðisprengja sem ég hef kynnst.“
Hans Vera þúsundþjalasmiður og ljósmyndari, Kristín Guðjónsdóttir upplifunarhönnuður, Ólöf Breiðfjörð og Ómar Guðjónsson þorpsfógeti á Jazzþorpinu.