11. ágú. 2022

Staða framkvæmda í Garðabæ

Garðabær er vaxandi bær en undanfarin ár hefur íbúum fjölgað mikið samhliða uppbyggingu nýrra hverfa. Miklar framkvæmdir hafa verið í bænum undanfarin ár og eru enn.

  • Leikskólinn Urriðaból sem á að byggja við Holtsveg 20 verður sex deilda leikskóli fyrir allt að 120 börn frá eins árs aldri.

Garðabær er vaxandi bær en undanfarin ár hefur íbúum fjölgað mikið samhliða uppbyggingu nýrra hverfa. Miklar framkvæmdir hafa verið í bænum undanfarin ár og eru enn. Reglulega berast fyrirspurnir til bæjarins um stöðu framkvæmda og verður hér farið yfir nokkrar af þeim helstu sem verið er að vinna að um þessar mundir. Einnig er hægt að skoða framkvæmdir á kortavef Garðabæjar (haka þarf við framkvæmdir).

Leikskólinn Urriðaból við Kauptún

Framkvæmdir við nýjan leikskóla í Urriðaholti, Urriðaból við Kauptún, ganga vel og samkvæmt áætlun. Vegna mikillar fjölgunar barna á leikskólaaldri í Urriðaholti var ákveðið að brúa bilið þar til nýr leikskóli rís við Holtsveg og hefja starf leikskólans í Kauptúninu í einingahúsum sem nú er verið að ljúka við að setja upp. Skólinn er rekinn af Skólum ehf. skv. samningi við Garðabæ, hann er sex deilda fyrir um 90 börn.

IMG_4697-2-

 Gengið hefur vel að ráða í stöður í leikskólanum, þar á meðal leikskólastjóra, aðstoðarleikskólastjóra og sex deildarstjóra. Innanhúsfrágangur í húsinu er í fullum gangi og á að ljúka á næstu 4-5 vikum. Áætlað er að lóðaverktaki ljúki vinnu á svipuðum tíma. Áætluð verklok við leikskólann er á bilinu 1-15. september 2022. Sjá líka frétt hér á vefnum frá 5. ágúst sl. um Urriðaból.

Leikskólinn Urriðaból við Holtsveg

Leikskólinn sem á að byggja við Holtsveg 20 verður sex deilda leikskóli fyrir allt að 120 börn frá eins árs aldri. Byggingin er tveggja hæða skólabygging auk kjallara að hluta og var teiknuð út frá vinningstillögu í hönnunarsamkeppni um nýjan leikskóla í Urriðaholti. Verksamningur við Þarfaþing hf. um byggingu hússins verður undirritaður um miðjan ágúst. Gert er ráð fyrir að starfsemi leikskólans hefjist á haustdögum 2023.  

Áframhaldandi bygging Urriðaholtsskóla

 Undirritaður hefur verið verksamningur milli Garðabæjar og ÞG verks vegna byggingu 2. áfanga Urriðaholtsskóla. Verkið felur í sér byggingu og fullnaðarfrágang 2. áfanga skólans að utan sem innan, ásamt fullbúinni og frágenginni lóð.

2. áfangi skólans verður á tveimur hæðum og verður hann sambyggður fyrsta áfanga við vesturgafl og að öllu leyti eins útfærður. Byggingin verður einangruð að utan með samskonar klæðningu og á henni verður flatt, tyrft þak. Heildarstærð  2. áfanga áfanga verður um 4.900 m².  Byggingarframkvæmdir við 2. áfanga eru þegar hafnar en byggingunni verður skv. verkáætlun samningsins við Garðabæ skilað fullbúinni að utan sem innan í byrjun árs 2024. Tveimur heimasvæðum skal skila tilbúnum til notkunar 1. ágúst 2023. Hluta lóðarinnar skal skila fullfrágengnum 15. nóvember 2022.

Unnið er að lokahönnun þriðja og síðasta áfanga skólans, sem mun m.a. hýsa íþróttasal og sundlaug ásamt tilheyrandi rýmum. Þegar hönnun á 3. áfanga lýkur fer hann í ferli samþykktar og útboðs. 

 Sjá einnig frétt hér á vef Garðabæjar frá 2. ágúst sl. um byggingu 2. áfanga Urriðaholtsskóla.

Samkvæmt verksamningi hefjast framkvæmdir við skólalóð í næstu viku. Hluti skólalóðar á að vera tilbúinn 15. nóvember nk. Urriðaholtsskóli hefur verið starfandi í sumar fyrir leikskólabörn í krefjandi en afar spennandi umhverfi fyrir unga forvitna íbúa sem horfa á hverfið sitt stækka og eflast.

Eiríkur Björn Björgvinsson sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs í Garðabæ segir að þrátt fyrir miklar framkvæmdir við skólann í vetur þá sjá nemendur og starfsfólk skólans fram á stærri og betur búnari skóla. „Framkvæmdirnar munu vissulega hafa einhver áhrif á skólastarfið í vetur en mikilvægast er að öryggi nemenda, allur aðbúnaður til kennslu og útiveru verður tryggður. Framkvæmdatíminn verður fljótur að líða og stefnt að því að stærri og enn glæsilegri skóli verði tekinn í notkun innan tíðar.”

Útivistar- og íþróttasvæði í Urriðaholti

Í vor var tekin skóflustunga að nýju útivistar- og íþróttasvæði í Urriðaholti í Garðabæ. Svæðið er efst í Urriðaholtinu og þar verður m.a. upphitaður sparkvöllur með gervigrasi, þar er gert ráð fyrir strandlakvelli, æfingasvæði með útiæfingatækjum, niðurgröfnum trampólínum, sleðabrekku, ærslabelg og leiksvæði fyrir börn með ýmsum leiktækjum. Jafnframt verður þar votlendi fyrir náttúruuplifun og leik. Í fyrsta áfanga var unnið að jarðvinnu undir knattspyrnuvöllinn og áætlað að það verði tilbúið um mánaðarmótin ágúst september. Einnig hefur verið unnið áfram að hönnun á hliðarsvæðum garðsins. Vinna við fótboltavöllinn hefur tafist lítillega vegna stækkunar á verkinu sem og vegna erfiðleika með efnisútvegun erlendis frá. Gervigras fyrir völlinn er væntanlegt til landsins eftir 2-3 vikur og er áætlað að sparkvöllurinn verði tilbúin um miðjan september. Þá er búið að kaupa leiktæki og semja við verktakann um frekari frágang á svæðinu.

Sjá frétt hér frá 5. maí sl. á vef Garðabæjar um nýja útivistar- og íþróttasvæðið við Urriðaholt.

Urridaholt_teikning_utivistarsvaedi_1660234926860

Búsetukjarni við Brekkuás

Við Brekkuás 2 verður reistur sjö íbúða búsetukjarni fyrir fatlað fólk, ásamt starfsmannaaðstöðu.

Brekkuas-2-teikning

 Framkvæmdir eru að hefjast og verklok eru áætluð 15. október 2023. Byggingin verður á einni hæð, staðsteypt og einangruð að utan, klædd með timburklæðningu, heildarstærð 587,6 m2

 Bygging búsetukjarnans er hluti af stefnu bæjarins um áframhaldandi uppbyggingu búsetukjarna fyrir fatlað fólk samhliða fjölgun annarra búsetuúrræða og fækkun herbergjasambýla. 

Gatnagerðar- og fráveituframkvæmdir við Vetrarbraut og Hnoðraholt

Gatnagerðarvinna hefur staðið yfir Vetrarbraut þar sem fyrsta áfanga, tengingu frá Arnarnesvegi að Hnoðraholtsbraut, fer senn að ljúka en þar var verið að búa til. Verið er að vinna við veitutengingar meðfram götunni.

Í 2. áfanga við Vetrarbraut verður núverandi vegur færður inn á nýja legu frá Vífilsstaðavegi, vestan við fjölnota íþróttahúsið Miðgarð og upp á Hnoðraholt samhliða Hnoðraholtsbraut. Í þeim áfanga eru nokkur áfangaskil og á þessu ári hefur verið unnið að gerð göngustígs frá Vífilsstaðavegi að Miðgarði og lauk því verki í apríl á þessu ári. Næst tekur við gatnagerð syðst á svæðinu, næst Vífilsstaðavegi, þar sem búið er að úthluta fimm lóðum í Vetrarmýri, verklok eru áætluð 1. október nk.
Sjá einnig frétt frá 6. maí sl. um fyrirhugaða uppbyggingu í Vetrarmýri en í maí var undirritaður samningur á milli Garðabæjar og framkvæmdafélagsins Arnarhvols um úthlutun lóða í Vetrarmýri.

Efst á Hnoðraholti er verið að undirbúa nýtt hverfi fyrir íbúabyggð en þar er jarðvinna og gatna­gerð í full­um gangi og samkvæmt áætlun. Bú­ist er við að fyrstu bygg­inga­fram­kvæmd­ir á svæðinu hefj­ist í vet­ur. 

Ný dælustöð fráveitu í Breiðumýri

Framkvæmdir við gatnagerð og veitur í nýjum hverfum á Álftanesi ganga vel.  Fyrsta skóflustunga að nýju hverfi sem mun rísa í Breiðumýri var tekin í lok síðasta árs og munu verða byggðar þar um 250 íbúðir. Búið er að taka í notkun nýja dælustöð fráveitu í Breiðumýri sem leysir af eldri skólpdælustöð sem hefur verður aftengd. 


Skólalóð Álftanesskóla

Búið er að opna tilboð vegna framkvæmda á skólalóð Álftanesskóla en alls bárust sex tilboð. Þau verða

 afgreidd í bæjarráði nk. þriðjudag 16. ágúst. Vonast er til að framkvæmdir hefjist mjög fljótlega og lögð áhersla á að vinna verkið hratt og vel.