Uppbygging hefst í Vetrarmýri
Föstudaginn 6. maí var undirritaður samningur á milli Garðabæjar og Framkvæmdafélagsins Arnarhvols um úthutun lóða í Vetrarmýri. Í fyrsta áfanganum voru boðnir út u.þ.b. 26.000 fermetrar af fjölbýli og 26.000 fermetrar af atvinnuhúsnæði á fimm aðskildum reitum.
-
Uppbygging hefst í Vetrarmýri
Föstudaginn 6. maí var undirritaður samningur á milli Garðabæjar og Framkvæmdafélagsins Arnarhvols um úthutun lóða í Vetrarmýri. Síðasta haust auglýsti Íslandsbanki, fyrir hönd Garðabæjar, til sölu byggingarrétt fyrir fjölbýlis- og atvinnuhúsnæði á fimm aðskildum byggingarreitum við Vetrarmýri í Garðabæ. Framkvæmdafélagið Arnarhvoll var hæstbjóðandi í alla fimm reiti auk bílastæðahúsa við Vetrarbraut sem liggja að Reykjanesbraut. og gengið var til viðræðna við félagið um úthlutun lóðanna sem nú var staðfest með undirritun samnings.
,,Vetrarmýri er einstaklega vel staðsett byggingarland þar sem er stutt í náttúrufegurð og útivist með golfvöll, skógrækt og Vífilsstaðavatn í nágrenni þess. Í nálægð eru einnig hinar sögufrægu byggingar Vífilsstaða sem tengjast heilsu og menningu landsmanna fyrr á tíðum. Í Vetrarmýrinni sjálfri erum við svo nýbúin að reisa og taka í notkun fjölnota íþróttahúsið Miðgarð sem á eftir að vera mikil lyftistöng fyrir heilsueflandi starfsemi og aðdráttarafl á þessu svæði sem fer nú í uppbyggingu í samstarfi við Arnarhvol.“ sagði Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar við undirritunina.
„Það er okkur ánægja að taka þátt í þessu verkefni í samstarfi við bæjaryfirvöld Garðabæjar, skipulag svæðisins og staðsetning er með því besta sem gerist á höfuðborgarsvæðinu. Með þekkingu og reynslu starfsfólks Arnarhvols munum við kappkosta að gera byggðina aðlaðandi og notendavæna fyrir núverandi og tilvonandi íbúa Garðabæjar.“ sagði Karl Þráinsson framkvæmdastjóri Framkvæmdafélagsins Arnarhvols við undirritunina.
Vetrarmýri er 20 hektara byggingaland, að fullu í eigu Garðabæjar, sem markast af Hnoðraholti til norðurs, Reykjanesbraut til vesturs, Vífilsstaðavegi til suðurs og golfvelli GKG til austurs. Áætluð heildarstærð byggðar í Vetrarmýri er um 66.000 fermetrar af fjölbýli og 36.000 fermetrar af atvinnuhúsnæði með 664 íbúðum að hámarki. Í fyrsta áfanganum voru boðnir út u.þ.b. 26.000 fermetrar af fjölbýli og 26.000 fermetrar af atvinnuhúsnæði á fimm aðskildum reitum.
Gatnagerð hófst á svæðinu fyrr í vor, Grafa og grjót sjá um gatnagerð í Vetrarmýri og Vetrarbraut upp á háholtið. Óskatak ehf sjá um gatnagerðina á Vetrarbraut frá Arnarnesvegi að háholtinu og þar er verkið á lokametrunum. Í Hnoðraholti norður er gatnagerð að fara hefjast og búið er að undirrita verksamning við Snók.
Samgöngumiðað svæði í nálægð við náttúruperlur
Vetrarmýri er eitt af þremur fyrirhuguðum uppbyggingarsvæðum á Vífilstaðalandi. Við gerð deiliskipulagsins var horft til góðra tenginga við stofnbrautina Reykjanesbraut, almenningssamgöngur og göngu- og hjólastíga og nálægar við útivistarperlur. Auk þess er aðgengi að nálægri samfélagsþjónustu eins og skólum, leikskólum, íþróttamannvirkjum o.fl. mjög gott.
Rammahluti aðalskipulags fyrir Vífilsstaðalands sem deiliskipulag Vetrarmýrar byggir á er umhverfisvottað samkvæmt alþjóðlega vottunarkerfinu BREEAM Communities. Unnið er að vottun fyrir deiliskipulag Vetrarmýrar sem mun gilda fyrir skipulag svæðisins. Skipulagshönnuðir á svæðinu voru Batteríið, Landslag og Efla.