6. maí 2022

Náttúruuplifun og leikur á nýju útivistar- og íþróttasvæði í Urriðaholti

Fimmtudaginn 5. maí tók Björg Fenger, forseti bæjarstjórnar Garðabæjar, skóflustungu að nýju útivistar- og íþróttasvæði í Urriðaholti í Garðabæ.

  • Urriðaholt útivistarsvæði
    Fyrsta skóflustungan að útivistarsvæði í Urriðaholti

Fimmtudaginn 5. maí tók Björg Fenger, forseti bæjarstjórnar Garðabæjar, skóflustungu að nýju útivistar- og íþróttasvæði í Urriðaholti í Garðabæ. Útvistarsvæðið er efst í Urriðaholtinu og afmarkast af Lindastræti, Urriðaholtsstræti, Maríugötu og Holtsveg.
Heildarstærð útivistarsvæðisins er um 15 þús m² eða 1,5 ha. Í miðju svæðinu eða garðinum verður upphitaður sparkvöllur með gervigrasi, á svæðinu er einnig gert ráð fyrir strandblakvelli, æfingasvæði með útiæfingatækjum, niðurgröfnum trampólínum, sleðabrekku, ærslabelg, leiksvæði fyrir börn með kastala, rólum, vegasalti, klifurgrind og jafnvægistækjum. Jafnframt verður þar votlendi fyrir náttúruupplifun og leik. Garðinum verður skipt upp í minni svæði með fjölbreyttum trjá- og runnagróðri. Í garðinum verður einnig hellulagt svæði fyrir borð og bekki sem verða til staðar fyrir þá gesti sem vilja njóta útiverunnar á staðnum.

Landslag ehf. sá um hönnun á útivistarsvæðinu. Í fyrsta áfanga verður unnið að jarðvinnu undir knattspyrnuvöll/sparkvöll sem á að ljúka í lok júní. Ljósþing og Stálborg ehf sjá um jarðvinnuna. Áfram er unnið að hönnun á hliðarsvæðum garðsins.

Teikning Urriðaholt útivistarsvæði

Teikning af útivistarsvæðinu/garðinum ásamt leiktækjum.

Hvað á garðurinn að heita?

Í Urriðaholti eru öflug íbúasamtök sem hafa átt gott samstarf við Garðabæ um málefni hverfisins og hafa samtökin lagt áherslu á það sem þarf að klára í hverfi sem er í uppbyggingu. Íbúasamtökunum hefur verið falið að finna leið til að finna nafn á nýja útivistar- og íþróttasvæðið og verður nafnið kynnt þegar svæðið verður tekið í notkun formlega síðar.
Hið nýja útivistar- og íþróttasvæði er í nálægð við Urriðaholtsskóla, sem er samrekinn leik- og grunnskóli, og verður því góð viðbót við möguleika á útivist fyrir nemendur. Útivistarsvæðið styður einnig vel við áherslur hverfisins þar sem mikil áhersla hefur verið á umhverfisvæna byggð og að hún sé í góðum tengslum við náttúruna í kring. Urriðaholt er eitt nýjasta hverfi Garðabæjar þar sem íbúðabyggð er í örum vexti. Hátt í 2500 manns búa nú í hverfinu og gert er ráð fyrir allt að 4500 íbúum í Urriðaholti þegar það verður fullbyggt.

Björg Fenger

Urriðaholt útivistarsvæði