19. nóv. 2019

Innviðir fyrir umhverfisvænni samgöngur í Garðabæ

Veitur og Garðabær hafa gert með sér samkomulag um uppbyggingu innviða fyrir hleðslu rafbíla í bænum. Markmiðið er að koma upp hleðslubúnaði fyrir rafbíla þeim til afnota sem síður geta komið slíkum búnaði upp heima fyrir og starfsfólki Garðabæjar.

  • Jóhannes Þorleiksson, forstöðumaður rafveitu Veitna, Gestur Pétursson, framkvæmdastjóri Veitna, Gunnar Einarsson bæjarstjóri og Jóna Sæmundsdóttir, formaður umhverfisnefndar Garðabæjar.
    Jóhannes Þorleiksson, forstöðumaður rafveitu Veitna, Gestur Pétursson, framkvæmdastjóri Veitna, Gunnar Einarsson bæjarstjóri og Jóna Sæmundsdóttir, formaður umhverfisnefndar Garðabæjar.

Veitur og Garðabær hafa gert með sér samkomulag um uppbyggingu innviða fyrir hleðslu rafbíla í bænum. Markmiðið er að koma upp hleðslubúnaði fyrir rafbíla þeim til afnota sem síður geta komið slíkum búnaði upp heima fyrir og starfsfólki Garðabæjar. Innviðir fyrir hleðslubúnaðinn verða byggðir upp á fjórum stöðum í landi Garðabæjar eða á lóðum tengdum stofnunum sveitarfélagsins og er áætlað að þeir verði tilbúnir á næsta ári. Þeir staðir sem um ræðir eru Ásgarður, Akrar, Sjálandsskóli og Hofsstaðaskóli.

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar og Gestur Pétursson, framkvæmdastjóri Veitna, undirrituðu samkomulagið í dag, 19. nóvember við íþróttahúsið Ásgarð, sem er einn þeirra staða þar sem hleðslubúnaði verður komið upp.

Bæði Veitur og Garðabær hafa sett sér metnaðarfull og nauðsynleg loftslagsmarkmið og aðgerðaáætlanir til að ná þeim. Auk eigin starfsemi ná áætlanir þeirra til að sporna við hlýnun jarðar einnig til þess að auðvelda almenningi að draga úr sinni losun. Umhverfisvænni samgöngur – að hjóla, ganga, nýta almenningssamgöngur eða aka á bílum sem ganga fyrir hreinni orku – eru þar lykilatriði.

Garðbæingar með flesta rafbíla

Íbúar í Garðabæ eru fremstir meðal jafningja þegar kemur að rafbílavæðingu. Ekkert bæjarfélag á landinu er með eins marga skráða rafbíla á hverja 1000 íbúa og Garðabær, eða 59 talsins. Til samanburðar má nefna að í Kópavogi eru 33 skráðir rafbílar á hverja 1000 íbúa, í Reykjavík 29 og í Hafnarfirði 28.

Í upphafi verður settur upp einn hleðslubúnaður á hverjum stað sem annar tveimur hleðslustæðum en gert er ráð fyrir að hleðslustæðumgeti fjölgað í sex. Þjónustuaðilar munu selja hleðsluþjónustu til rafbílaeigenda, reka viðskiptakerfi, greiða dreifingarkostnað rafmagns og annast rekstur búnaðarins.