2. mar. 2023

Urriðaból við Holtsveg verður sex deilda leikskóli

Bæjarráð Garðabæjar hefur falið skipulagsnefnd bæjarins að móta tillögu að breytingu á deiliskipulagi 1. áfanga norðurhluta Urriðaholts vegna lóðarinnar við Holtsveg 20 þannig að upphafleg hönnun leikskóla sem er í byggingu á lóðinni falli að skilmálum deiliskipulagsins. Með því verður leikskólinn sex deilda en íbúabyggð í Urriðaholti er í örum vexti.

  • Leikskólinn Urriðaból sem á að byggja við Holtsveg 20 verður sex deilda leikskóli fyrir allt að 120 börn frá eins árs aldri.

Bæjarráð Garðabæjar hefur falið skipulagsnefnd bæjarins að móta tillögu að breytingu á deiliskipulagi 1. áfanga norðurhluta Urriðaholts vegna lóðarinnar við Holtsveg 20 þannig að upphafleg hönnun leikskóla sem er í byggingu á lóðinni falli að skilmálum deiliskipulagsins. Með því verður leikskólinn sex deilda en íbúabyggð í Urriðaholti er í örum vexti. Gert er ráð fyrir 4500 íbúum í hverfinu þegar það verður fullbyggt og þar á meðal eru fjölmörg leikskólabörn.

Undanfarnar vikur hefur framkvæmdin við leikskólann við Holtsveg verið til endurskoðunar en byggingarleyfi hans var fellt úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála um miðjan desember. Byggingarleyfi var endurútgefið í janúar en þá var gert ráð fyrir fimm deilda leikskóla á einni hæð, en eldra byggingarleyfið gerði ráð fyrir sex deilda leikskóla sem væri að hluta til á tveimur hæðum. Endurútgáfa byggingarleyfisins varð til þess að hægt var að halda framkvæmdum að mestu áfram í samræmi við verksamning og þannig halda verkefninu sem mest á áætlun.

„Við höfum skoðað þetta gaumgæfilega, rætt við hagsmunaaðila og reynt að koma til móts annars vegar við þörfina á sex deilda leikskóla í hverfinu og hins vegar kröfur íbúa í næsta nágrenni við bygginguna,“ segir Almar Guðmundsson, bæjarstjóri, en þær tvær leiðir sem hafa verið til skoðunar eru að halda í upphafleg áform og hafa hluta leikskólans á tveimur hæðum eða að stækka byggingarreit skólans og hafa leikskólann sex deildir á einni hæð. Málið fer nú í farveg hjá skipulagsnefnd bæjarins sem verður falið að móta tillögu að breytingum á deiliskipulaginu þannig að leikskólinn geti verið sex deilda og að hluta á tveimur hæðum eins og upphafleg hönnun skólans, sem kynnt var á sínum tíma, gerir ráð fyrir.

Vilji til að lækka heildarhæð þess hluta sem er tveggja hæða

Bæjarráð hefur lýst yfir vilja til að leita leiða til að lækka heildarhæð þess hluta leikskólans sem er tveggja hæða til að koma á móts við sjónarmið íbúa um að takmarka útsýnisskerðingu þeirra eins og kostur er.

„Okkur þykir ljóst að sú leið að byggja leikskólann í samræmi við upphaflega hönnun er hagkvæmari og uppfyllir betur markmið um mikilvæga samfélagslega uppbyggingu. Með þessu er hægt að koma upp betri starfsmannaaðstöðu, þetta skerðir ekki útileiksvæði barnanna, framkvæmdatíminn er styttri og framkvæmdakostnaðurinn er lægri. Bæjaryfirvöldum ber að leggja áherslu á þá mikilvægu samfélagslegu hagsmuni sem liggja því til grundvallar að byggja leikskóla fyrir 120 börn og koma þannig á móts við væntingar ungra barnafjölskyldna í Urriðaholti,“ segir Almar.

Árið 2021 var haldin hönnunarsamkeppni um byggingu leikskólans. HuldaJóns Arkitektúr, sastudio og exa nordic hönnuðu leikskólann út frá vinningstillögu í hönnunarsamkeppninni. Í uppbyggingu Urriðaholts hefur verið mikil áhersla á að byggðin sé umhverfisvæn og í góðum tengslum við náttúruna í kring. Nýi leikskólinn, sem er Svansvottaður, verður staðsettur við Holtsveg, neðan götu þar sem lóð opnast út að grænu svæði sem liggur frá efri hluta holtsins niður í átt að vatninu og Kauptúni.