9. sep. 2022 Framkvæmdir Leikskólar Skólamál Urriðaholt

Nýr leikskóli rís við Holtsveg í Urriðaholti

Fimmtudaginn 8. september sl. var tekin skóflustunga að nýjum leikskóla, Urriðaból, við Holtsveg í Urriðaholti í Garðabæ. Það voru þau Almar Guðmundsson bæjarstjóri, Hulda Jónsdóttir arkitekt leikskólans og Sólveig Sigurþórsdóttir fjármálastjóri Þarfaþings ehf. sem byggir skólann sem tóku skóflustunguna. Þeim til aðstoðar var góður hópur leikskólabarna úr leikskólanum Hæðarbóli sem einnig söng nokkur lög fyrir viðstadda. 

  • Skóflustunga að nýjum leikskóla við Holtsveg í Urriðaholti
    Skóflustunga að nýjum leikskóla við Holtsveg í Urriðaholti

Fimmtudaginn 8. september sl. var tekin skóflustunga að nýjum leikskóla, Urriðaból, við Holtsveg í Urriðaholti í Garðabæ. Það voru þau Almar Guðmundsson bæjarstjóri, Hulda Jónsdóttir arkitekt leikskólans og Sólveig Sigurþórsdóttir fjármálastjóri Þarfaþings ehf. sem byggir skólann sem tóku skóflustunguna.  Þeim til aðstoðar var góður hópur leikskólabarna úr leikskólanum Hæðarbóli sem einnig söng nokkur lög fyrir viðstadda. 

Skóflustunga að nýjum leikskóla við Holtsveg í Urriðaholti

Skóflustunga að nýjum leikskóla við Holtsveg í Urriðaholti

Falleg staðsetning stutt frá Urriðavatni

 

Árið 2021 var haldin hönnunarsamkeppni um byggingu á nýjum leikskóla í Urriðaholti við Holtsveg og nú hefjast byggingarframkvæmdir á lóðinni.  Áætlað er að leikskólinn verði tilbúinn í desember 2023. 

Nýi leikskólinn verður staðsettur við Holtsveg, neðan götu þar sem lóð opnast út að grænu svæði sem liggur frá efri hluta holtsins niður í átt að vatninu og Kauptúni. Áætluð heildarstærð leikskólans er um 1.400 m² og stefnt er að því að byggingin verði vistvottuð. Nýi leikskólinn í Urriðaholti verður 6 deilda leikskóli fyrir allt að 120 börn frá 1 árs aldri.

HuldaJóns Arkitektúr, sastudio og exa nordic hönnuðu leikskólann út frá vinningstillögu í hönnunarsamkeppninni og Þarfaþing ehf. reisir skólann eftir útboð á þessu ári. 

Vinningstillaga leikskóli í Urriðaholti

Urriðaholt – hverfi í vexti

Vegna mikillar fjölgunar barna á leikskólaaldri í Urriðaholti var ákveðið að brúa bilið þar til leikskólinn rís við Holtsveg og hefja starf leikskólans í einingahúsum sem nú eru komin upp við Kauptún og þar hefja börn leikskólagöngu í september á þessu ári.

Urriðaholt er eitt nýjasta hverfi Garðabæjar þar sem íbúðabyggð er í örum vexti. Hátt í 2500 manns búa nú í hverfinu og gert er ráð fyrir allt að 4500 íbúum í Urriðaholti þegar það verður fullbyggt. Í uppbyggingu Urriðaholts hefur verið mikil áhersla á að byggðin sé umhverfisvæn og í góðum tengslum við náttúruna í kring.