7. jan. 2024

Viðurkenning fyrir framlag til félagsmála í Garðabæ

Þau Guðmundur Jónsson og Margrét Tómasdóttir voru heiðruð sérstaklega fyrir starf sitt að félagsmálum í Garðabæ. 

Íþróttafólk í Garðabæ fékk viðurkenningar fyrir árangur ársins 2022 á íþróttahátíð bæjarins sem fram fór í Miðgarði sunnudaginn 7. janúar. Þá voru einnig veittar heiðursviðurkenningar vegna starfa að íþrótta- og æskulýðsmálum. Þau Guðmundur Jónsson og Margrét Tómasdóttir voru heiðruð sérstaklega fyrir starf sitt að félagsmálum í Garðabæ. 

Hrannar Bragi Eyjólfsson, formaður ÍTG, Guðmundur og Harpa Þorsteinsdóttir, nefndarmaður í ÍTG (Mynd: Garðapósturinn)

Guðmundur Jónsson (Stjarnan handknattleikur)

Guðmundur var formaður handknattleiksdeildar Stjörnunnar frá 1979-1984 á mesta uppgangstíma félagsins. Hann hafði mikinn metnað og það markmið að bæði karla- og kvennalið félagsins kæmust í hóp þeirra bestu, einnig hófst gríðarleg uppbygging yngri flokka félagsins.

Meistaraflokkur karla komst upp úr 3. deild árið 1981 og fór svo beint upp í efstu deild árið 1982. Stjörnumenn urðu fljótt upp úr því stafnbúar í efstu deild, urðu bikarmeistarar 1987 og 1989 og voru samfellt í efstu deild í hartnær 30 ár. Meistaraflokkur karla hefur unnið fjóra bikarmeistaratitla.

Hann var formaður þegar meistaraflokkur kvenna sendi í fyrsta sinn lið til keppni á Íslandsmótinu 1982. Vorið 1983 eignaðist Stjarnan í fyrsta skipti Íslandsmeistara þegar bæði 5. flokki karla og 2. flokkur kvenna hömpuðu titlinum á nánast sömu mínútunni. Félagið hafði eignast frábæra leikmenn í öllum flokkum sem síðar urðu landsliðsmenn og margfaldir meistarar. Nokkrum árum síðar hófst gullaldartímabil í sögu félagsins þegar meistaraflokkur vann hvern Íslands- og bikarmeistaratitilinn á fætur öðrum. Stjörnukonur urðu fyrst bikarmeistarar 1989 og Íslandsmeistarar 1991. Meistaraflokkur kvenna hefur átta sinnum verið bikarmeistari og sjö sinnum Íslandsmeistari. Aðeins hafa Reykjavíkurfélögin Valur og Fram unnið fleiri titla í kvennaflokki.

Stjarnan lyfti sér á hærri stall í formannstíð Guðmundar Jónssonar og glæstur árangur á þessum árum varð mikil hvatning fyrir félagið í heild sinni og sýndi fram á að Stjarnan gat orðið stórveldi í öllum greinum.

 

Hrannar Bragi Eyjólfsson, formaður ÍTG, Margrét og Harpa Þorsteinsdóttir, nefndarmaður í ÍTG

 

Margrét Tómasdóttir (Skátafélagið Vífill og Hestamannafélagið Sprettur)

Margrét Tómasdóttir gekk til liðs við skátahreyfinguna á barnsaldri, fyrst í Reykjavík síðan í Kópavogi og Vífli
Hún gegndi öllum helstu foringjastörfum í hreyfingunni á yngri árum og að námi loknu var hún í forystu skátahreyfingarinnar m.a. formaður starfsráðs Bandalags íslenskra skáta, en ráðið fjallar um viðfangsefni skátastarfsins á hverjum tíma. Margrét sat í stjórn Skátafélagsins Vífils í Garðabæ á árunum 1991-1996 og var Margrét einstaklega röggsöm og fylgin sér og á félagið henni margt að þakka! Árið 2004 var hún fyrst kvenna kjörin skátahöfðingi Íslands eftir að hafa gegnt embætti aðstoðarskátahöfðingja um árabil. Margrét var skátahöfðingi alls í sex ár eða til ársins 2010.
Fyrir utan ötult sjálfboðastarf í skátahreyfingunni hefur Margrét unnið óeigingjörn störf fyrir samfélagið í Sólheimum og setið í stjórn og fulltrúaráði Sólheima.
Margrét hefur einnig verið nátengd íþróttastarfi var sjálf ung í Íslandsmeistaraliði Fram í handbolta. Hún sat um tíma í Íþrótta- og tómstundaráði Garðabæjar, hefur setið í stjórn fimleikadeildar Stjörnunnar, var í æskulýðsnefnd Andvara fyrir sameiningu hestamannafélaganna og hefur setið í stjórn Hestamannafélagsins Spretts um nokkurt skeið, komið að skipulagningu stórmóta, komið að fræðslu og æskulýðsstarfi félagsins, stutt við bakið á Landsmótsförum og verið í undirbúningshópi fyrir Landsmót á félagssvæði Spretts.

Þá hefur Margrét einnig verið í forystu fyrir fagfélag hjúkrunarfræðinga.

Í öllum störfum sínum hefur Margrét Tómasdóttir verið konum hvatning til að láta til sín taka í þjóðfélaginu.