28. nóv. 2019

50 ára afmæli Hjálparsveitar skáta í Garðabæ

Á dögunum voru 50 ár liðin frá því að Hjálparsveit skáta Garðabæ var stofnuð. Í tilefni þess var haldið opið hús í Jötunheimum laugardaginn 16. nóvember þar sem gestum og gangandi var boðið til veislu.

  • Gunnar Einarsson bæjarstjóri, Íris Dögg formaður Hjálparsveit Skáta í Garðabæ og Björg Fenger formaður íþrótta- og tómstundaráðs í Garðabæ.
    Gunnar Einarsson bæjarstjóri, Íris Dögg formaður Hjálparsveit Skáta í Garðabæ og Björg Fenger formaður íþrótta- og tómstundaráðs í Garðabæ.

Á dögunum voru 50 ár liðin frá því að Hjálparsveit skáta Garðabæ var stofnuð. Í tilefni þess var haldið opið hús í Jötunheimum laugardaginn 16. nóvember þar sem gestum og gangandi var boðið til veislu. Fjölmargir Garðbæingar komu við og fögnuðu tímamótunum með Hjálparsveitinni. Auk opna hússins hafa á hafa á árinu verið farnar fjölmargar afmælisferðir í tengslum við afmælið auk annarra viðburða.

Stofnandi Hjálparsveita skáta í Garðabæ var Einar Guðmundsson flugvélastjóri. Einar var búsettur í Silfurtúni eða vegna vinnu hans í Keflavík þurfti hann oft að leggja leið sína í sjoppuna við Hafnarfjarðarveginn í Garðabæ. Þar söfnuðust unglingar oft saman og fannst Einari að orka þeirra gæti nýst betur í hollu félagsstarfi en að hanga í sjoppunni. Sjálfur átti hann langan feril að baki í skátahreyfingunni.

Einar nefndi við unglingana að gerast skátar en það þótti ekki nægilega spennandi. Þegar Einar nefndi þá hjálparsveit á borð við þær sem voru annars staðar á landinu varð hljóðið annað. Úr varð að 19. október 1969 hittust tólf ungir menn á heimili Einars og stofnuðu hjálparsveit. Einar var kosinn formaður og leitaði hann fljótlega til bæjarstjórnar Garðabæjar, tilkynnti félagið og óskaði eftir aðstoð við að koma félaginu á legg.

Fyrstu skrefin í starfinu voru ekki stór. Námskeið í skyndihjálp var haldið, námskeið í notkun og meðhöndlun áttavita og þá reynt að selja jólatré fyrir jólin árið 1969 og á milli jóla og nýárs var efnt til flugeldasölu í Goðatúninu. Síðan þá hefur sala jólatrjá og flugelda verið veigamesta fjáröflun félagsins.

Í dag skipar hjálparsveitin stóran sess í bæjarlífi Garðbæinga. Frá upphafi hafa 280 meðlimir klárað þjálfun og skrifað undir eiðastaf hjá sveitinni. Þá eru 98 aðilar á útkallsskrá en tæplega 40 eru virkir í daglegum aðgerðum.

Á vefsíðu Hjálparsveitarskáta í Garðabæ má finna fróðleik og upplýsingar um sveitina.