Ábyrgur rekstur skilar árangri: 287 milljón króna rekstarafgangur
Árshlutauppgjör Garðabæjar fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2025 sýnir sterkan og stöðugan rekstur sveitarfélagsins. Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta er jákvæð um 287 milljónir króna og fjárhagsáætlun ársins er að standast með ágætum.
-
Árshlutauppgjör Garðabæjar fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2025 sýnir sterkan og stöðugan rekstur sveitarfélagsins. Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta er jákvæð um 287 milljónir króna og fjárhagsáætlun ársins er að standast með ágætum.
Uppgjörið var lagt fram á fundi bæjarráðs Garðabæjar þriðjudaginn 2. september, en það er fyrir tímabilið frá janúar 2025 til júní 2025.
Rekstrartekjur tímabilsins námu 16,2 milljörðum króna en rekstrargjöld 13,9 milljörðum króna. Afkoma fyrir fjármagnsliði og afskriftir var jákvæð um tæpa 2,4 milljarða króna og veltufé frá rekstri nam á sama tíma 1,4 milljörðum króna.
Efnahagsreikningur sýnir jafnframt sterka stöðu sveitarfélagsins. Skammtímaskuldir hafa lækkað verulega og langtímalántökur voru hóflegar þrátt fyrir miklar fjárfestingar í innviðum. Eigið fé Garðabæjar nam í lok júní 29 milljörðum króna, sem jafngildir um 43 prósenta eiginfjárhlutfalli.
Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar segir niðurstöðuna endurspegla sterkan og ábyrgan rekstur:
„Rekstur bæjarins er í jafnvægi og í samræmi við áætlanir. Grunnreksturinn eflist enn og sjóðstreymi styrkist. Enn og aftur minnum við á að traust fjárhagsstaða er undirstaða þess að Garðabær sé vel undir það búinn að mæta þörfum nýrra og núverandi íbúa. Við erum ánægð með og finnum fyrir því að fólk vill flytja í Garðabæ. Umgjörð fjármála sveitarfélagsins sýnir líka að bæjarfélagið er vel í stakk búið til að tryggja áfram öfluga þjónustu við íbúa Garðabæjar.“
Kynntu þér reikninginn hér: Árshlutauppgjör Garðabæjar 2025