24. jún. 2025

Hugmyndir fyrir góðviðrisdaga í Garðabæ

Það er ýmislegt skemmtilegt hægt að gera í Garðabæ á góðviðrisdögum. Hér koma nokkrar hugmyndir sem gott er að hafa á bak við eyrað í sumar.

  • Hugmyndir fyrir góðviðrisdaga í Garðabæ
    Það er ýmislegt skemmtilegt hægt að gera í Garðabæ á góðviðrisdögum. Hér koma nokkrar hugmyndir sem gott er að hafa á bak við eyrað í sumar.

Strandblak

Þrír strandblakvellir eru í Bæjargarði Garðabæjar sunnan við Ásgarð. Fullkomin afþreying á sólríku sumarkvöldi.

Strandblak

Hver sem er getur nýtt sér vellina en þeir sem eiga pantaða tíma ganga fyrir á viðkomandi velli. Tímapantanir eru rafrænar á slóðinni: https://gardur.skedda.com/booking.

Frisbígolf

Frisbígolf er skemmtilega afþreying. Frisbígolfvöllurinn á Vífilsstöðum er með 10 brautir og býður upp á mikla fjölbreytni. Notendur vallarins koma sjálfir með frisbídiska til að spila með.

Frisbigolfvollur_Vifilsstadir_karfa2_1750686687018

Völlurinn er í garðinum sunnan við Vífilsstaði en gestir sem koma akandi á svæðið geta lagt bílum sínum við fjósið á Vífilsstöðum og gengið þaðan niður stíginn að fyrstu brautinni. Einnig er hægt að koma gangandi á malbikaða göngustígnum sem liggur sunnan við Vífilsstaði.

Meðfylgjandi er kort af vellinum.

Skjamynd-2025-06-23-130748

Heimsókn í Krók

Burstabærinn Krókur á Garðaholti er opinn alla sunnudaga í sumar frá kl. 11:30-15:30 og aðgangur er ókeypis. Krókur er lítill bárujárnsklæddur burstabær í eigu Garðabæjar sem var endurbyggður úr torfbæ árið 1923.

Krokur_sumarmynd1_1750686686833

Tilvalið er að fara í göngutúr um Garðaholt og koma við í Króki í leiðinni einnig er hægt að leggja bílum við samkomuhúsið á Garðaholti (Krókur er staðsettur ská á móti samkomuhúsinu) við gatnamót Garðavegar og Garðaholtsvegar.

Minjagarður á Hofsstöðum

Við Kirkjulund eru merkar fornminjar varðveittar sem gaman er að kynna sér. Þar eru fræðsluskilti og margmiðlunarsjónaukar sem gefa gestum færi á að skyggnast inn í fortíðina á nýstárlegan hátt.

Á Garðatorgi 7 má svo fræðast enn frekar um lífið í Garðabæ frá landnámi til dagsins í dag á sýningunni Aftur til Hofsstaða

Ókeypis í sund fyrir yngri en 17 ára

Sundferð í sólinni klikkar ekki. Það er ókeypis aðgangur í sundlaugar Garðabæjar fyrir yngri en 17 ára. Hér má sjá afgreiðslutíma í Ásgarðslaug og Álftaneslaug.

Ótal hjóla- og gönguleiðir

Fjölmargar fjölskylduvænar hjóla- og gönguleiðir eru í Garðabæ. Við mælum með að skoða kortavef Garðabæjar eða vefinn Út um allt og fá fyrir hugmyndir að skemmtilegum hjóla- eða gönguleiðum í bænum.

Gonguleidir

Vefurinn Út um allt er notendavænn og sýnir ótal frábæra útivistamöguleika og gagnlegar upplýsingar um þá, t.d. tegund útivistar, svæði, tímalengd og erfiðleikastigi svo dæmi séu tekin. Þannig ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi.

Skemmtileg leiksvæði

Í Garðabæ er alltaf stutt í næsta leiksvæði. Við mælum með að kíkja inn á Kortavef Garðabæjar, haka þar við Hagnýtar upplýsingar og svo Leiksvæði og sjá hvar allir leikvellir bæjarins eru staðsettir.

Leikvollur

Fyrir hjólagarpa

Orkumiklir hjólagarpar geta nýtt sér hjólabrautina fyrir ofan leikskólann Lundaból, hún er um 440 metrar að lengd. Við mælum með að prófa.