Aðferðir til að stemma stigu við ágangi máva
Undanfarin ár hefur Garðabær staðið fyrir fræðslu til íbúa um hvernig megi verjast ágangi máva.
Undanfarin ár hefur Garðabær staðið fyrir fræðslu til íbúa um hvernig megi verjast ágangi máva. Fræðslan er unnin í samræmi við ráðleggingar Náttúrufræðistofnunar. Nokkuð góður árangur hefur náðst síðastliðin ár.
Varptímabil máva hefst í lok maí - byrjun júní. Þegar varptímabilið hefst geta íbúar gripið til ýmissa aðgerða til að stemma stigu við ágangi máva.
Vistfræðingur hefur bent bæjarbúum á þessar þrjár aðferðir:
- truflun
- eggjaeyðing og/eða eggjatínsla (þ.e.a.s. sem ekki eru í friðlandi bæjarins). Meindýraeyðar geta aðstoðað við að fjarlægja hreiður mávanna eða unga.
- Þá er afar mikilvægt að loka fyrir fæðuuppsprettur af mannavöldum – svo sem rusl, fæðuafganga, brauðgjafir o.fl. Matargjafir til smáfugla eru þar auðvitað undanskildar, en matarafgangar sem settir eru á opin svæði eða göngustíga geta laðað að mávana.
Arnór Þ. Sigfússon, dýravistfræðingur, tók saman fræðsluefni fyrir Garðabæ sem má sjá hér:
Fræðsluefni um máva
Húsfélög áfram á vaktinni
Mikilvægt er að fylgjast með þökum og öðrum stöðum sem mávar gætu nýtt sem varp- eða setstaði. Húsfélög eru áfram hvött til að standa saman að því að vakta húsþök á fjölbýlishúsum en góður árangur hefur náðst með því að setja upp fælur á þök, eins konar veifur.
Meindýraeyðir á vegum Garðabæjar hefur sett fuglagadda á ljósastaura í Sjálandi, Prýðahverfi, Austurtúni, Skólatúni og Suðurtúni til að koma í veg fyrir að mávar geti hafst við á staurunum. Farið verður eftir ábendingum íbúa ef fuglagöddum verður komið fyrir á fleiri staurum í bænum. Einnig verður stungið á egg mávanna líkt og undanfarin ár (þ.e.a.s. egg sem ekki eru í friðlandi bæjarins).
Við minnum á ábendingavefinn okkar, þar er hægt að koma á framfæri ábendingu til starfsmanna Garðabæjar varðandi umhverfið.