17. feb. 2025

Áður en hafist er handa

Ert þú í framkvæmdahugleiðingum? Við minnum á leiðbeiningar bæjarins um veggi, girðingar og smáhýsi.

Nú fer senn að vora og vill umhverfissvið Garðabæjar hvetja íbúa í framkvæmdarhug að kynna sér þær reglur sem gilda í þeirra hverfi um veggi, girðingar og smáhýsi áður en hafist er handa.

Veggir og girðingar á lóðum eru m.a. nýttir til skjóls- og rýmismyndunar og hafa mikil sjónræn áhrif á götumynd bæjarins. Ef veggir og girðingar á lóðum eru of háir geta þeir dregið úr öryggi, varpað skugga og skapað fráhrindandi umhverfi.

Veggir, girðingar og gróður á lóðamörkum að götu mega ekki hindra sjónlínur vegfarenda og ekki hindra sýn á gatnamótum með tilliti til umferðaröryggis.

Garðabær hefur gæði og fegurð bæjarmyndarinnar að leiðarljósi. Á heimasíðu Garðabæjar má nálgast allar helstu upplýsingar og einnig samþykkt Garðabæjar um veggi og girðingar.

Öll gildandi deiliskipulög eru aðgengileg á kortavef Garðabæjar.

Ef spurningar vakna er starfsfólk umhverssviðs alltaf til þjónustu reiðubúið. Einnig má hafa samband í tölvupósti, skipulag@gardabaer.is.