13. nóv. 2025

Æsispennandi fjölskyldusýning á sviði FG

Leikfélag Fjölbrautarskólans við Garðabæ sýnir nú skemmtilegt frumsamið verk sem heitir Sagan af Mánahofi. Um æsispennandi barna- og fjölskyldusöngleik er að ræða. Síðastliðna helgi var sérstök góðgerðasýning fyrir Píeta og áfram verður hægt að styrkja samtökin í sjoppunni í FG.

Leikritið Sagan af Mánahofi sem leikfélag Fjölbrautarskólans í Garðabæ sýnir fer með áhorfendur í ævintýralegt ferðalag. „Leikritið fjallar um þau Loga og Heklu sem búa í mismunandi heimum. Hekla er frá Sultustræti þar sem galdrafólk býr, og Logi er frá Fjallastræti þar sem venjulegt fólk býr. Einn daginn eru þau dregin í annan heim af tröllasystkinunum Flóka og Flækju þar sem þau þurfa að sigra Mána til að ná að sameina heimanna fyrir fullt og allt,“ segir Þórdís Björt Andradóttir, markaðsstjóri leikfélagsins Verðandi, þegar hún er spurð út í söguna.

Handritið er afrakstur samkeppni sem var haldin í haust. „Þá gátu nemendur FG sent inn nafnlaust handrit sem var svo valið til útfærslu og sýningar í vetur. Sagan af Mánahofi bar sigur úr býtum í kepnninni, höfundar eru Kári Hlynsson og Hildur Jóna Valgeirsdóttir. Katla Borg Stefánsdóttir er dans- og sviðshreyfingahöfundur og Gréta Þórey Ólafsdóttir er lagahöfundur ásamt Kára.“

IMG_3028

Hátt í 250 þúsund krónur fyrir Píeta samtökin

Sagan af Mánahofi hefur verið sýnt þrisvar sinnum og hefur gengið vel. „Samtals höfum við sýnt þrjár sýningar fyrir almenning, svo í þessari viku erum við að sýna yngstu stigum í grunnskólum Garðabæjar verkið. Þetta hefur allt gengið mjög vel!“

Um síðastliðna helgi var sérstök góðgerðarsýning og rann allur söluágóði til Píeta samtakanna. „Það gekk ótrúlega vel og erum við að nálgast 250.000 krónur fyrir Píeta. Það er enn þá hægt að styrkja í sjoppunni.“

Lokasýningin verður á laugardaginn, 15. nóvember, klukkan 18.00. Hægt er að nálgast miða í gegnum Tix.is og einnig við hurð í FG á sýningardag.

IMG_2814

Í leikfélaginu Verðandi eru:

  • Petrún Anna Pálsdóttir/formaður
  • Lilja Petrea Líndal Aradóttir/varaformaður
  • Guðmundur Sölvi Sigurðsson/fjármálastjóri
  • Þórdís Björt Andradóttir/ markaðsstjóri
  • Hanna Lilý Hilmarsdóttir/ ritari
  • Hulda Dís Björgvinsdóttir/ skemmtunarstjóri
  • Kamilla Inga Ellertsdóttir/ busafulltrúi
  • Hjörleifur Daði Oddsson/ busafulltrúi