Ævar Smári er 20 þúsundasti Garðbæingurinn
Íbúar Garðabæjar eru orðnir 20 þúsund talsins en það er hann Ævar Smári Matthíasson sem reyndist vera 20 þúsundasti Garðbæingurinn.
Ævar Smári Matthíasson er 20 þúsundasti Garðbæingurinn, hann kom í heiminn 24. júní 2024 og er fyrsta barn þeirra Silju Rúnarsdóttur og Matthíasar Finns Vignissonar. Fjölskyldan tók vel á móti Almari Guðmundssyni bæjarstjóra Garðabæjar og Margréti Bjarnadóttur forseta bæjarstjórnar á heimili sínu í Urriðaholti.
Þau Silja og Matthías fluttu í Garðabæinn í apríl á þessu ári þegar þau keyptu sína fyrstu íbúð saman í Urriðaholti. Silja er að norðan en hún er uppalin í Fnjóskadal í Þingeyjarsveit og Matthías er frá Akranesi.
Þau kunna afar vel við sig á nýja staðnum og segja samfélagið í Urriðaholti samheldið. Þar sé margt barnafólk og nóg um að vera fyrir íbúa hverfisins. Nálægðin við náttúruna er líka stór kostur að þeirra mati en bæði stunda þau mikla útivist.
Ævar litli var vær og góður á meðan á heimsókninni stóð. Almar og Margrét komu færandi hendi fyrir hönd Garðabæjar og gáfu Ævari fallegan galla frá As We Grow úr Hönnunarsafni Íslands og blómvönd frá Luna Studio. Nýbökuðu foreldrarnir fengu svo árskort í sundlaugar Garðabæjar.
„Garðabær heldur áfram að vaxa, dafna og blómstra. Það er gott að heyra að fólk sækist eftir því að búa í Garðabæ og treystir því að það geti gengið að lífsgæðum eins og fallegu umhverfi, þjónustu og góðu samfélagi vísu. Ég hlakka til að fylgjast með Ævari Smára í framtíðinni,“ segir Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðarbæjar.
Garðbæingurinn Ævar Smári Matthíasson kom í heiminn 24. júní og er hann 20 þúsundasti íbúi Garðabæjar. Hann virtist kátur með nafnbótina og heimsóknina.