2. apr. 2019

Álftanesskóli fékk viðurkenningu fyrir lestur

Í lestrarátaki Ævars vísindamanns 2019 var met slegið í lestri bóka en samtals lásu íslenskir krakkar 91.734 bækur á tveimur mánuðum, en foreldrar þeirra 5.904 bækur. Yngsta stig í Álftanesskóla fékk viðurkenningu fyrir hlutfallslega mestan lestur á sínu aldursstigi.

  • Frá lokahátið lestrarátaksins
    Frá lokahátið lestrarátaksins

Í lestrarátaki Ævars vísindamanns 2019 var met slegið í lestri bóka en samtals lásu íslenskir krakkar 91.734 bækur á tveimur mánuðum, en foreldrar þeirra 5.904 bækur. Yngsta stig í Álftanesskóla fékk viðurkenningu fyrir hlutfallslega mestan lestur á sínu aldursstigi. Verðlaunin eru þau að Álftanesskóli kemur fyrir í síðustu bókinni í flokknum Bernskubrek Ævars vísindamanns. Bókin mun heita Óvænt endalok og kemur út í júní.

Alls lásu nemendur í Álftanesskóla 3.609 bækur og foreldrar barna í Álftanesskóla lásu 204 bækur.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, drógu eitt foreldri og fimm krakka úr lestrarmiðapottinum þann 20. mars 2019 við hátíðlega athöfn í Borgarbókasafni, Grófinni. Þau heppnu sem dregin voru verða gerð að persónum í Óvæntum endalokum. Þar á meðal er foreldri í Álftanesskóla, móðir Jórunnar Mónu Stefánsdóttur í 1. bekk. Þá var að auki dreginn út einn nemandi í hverjum skóla sem tók þátt og var Óðinn Már Davíðsson í 2. bekk Álftanesskóla dreginn út og fær hann áritað eintak af bókinni þegar hún kemur út í júní.

Þetta var fimmta og jafnframt síðasta lestrarátak Ævars vísindamanns en allir krakkar í 1.-10. bekk gátu tekið þátt. Á þessum fimm árum hafa verið lesnar tæplega 330.000 bækur í lestrarátökum Ævars vísindamanns.

Við óskum nemendum Álftanesskóla innilega til hamingju með árangurinn.