22. feb. 2024

Almar flakkar með,,skrifborðið” um Garðabæ

„Mig langar að heyra beint hvernig við erum að standa okkur, hvað gengur vel og hvað má bæta,“ segir Almar.  

  • SSP_3926

„Mér finnst lang best að vera í beinum samskiptum við íbúana, og sem betur fer hef ég ýmis tækifæri til þess,“ segir Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar sem ætlar að stilla upp „skrifborðinu sínu“ í sundlaugum Garðabæjar, Jónshúsi og Urriðaholtsskóla og eiga samtöl við íbúa nú í lok febrúar og upphafi marsmánaðar.

„Mig langar að heyra beint hvernig við erum að standa okkur, hvað gengur vel og hvað má bæta,“ segir Almar og segist setja áherslu á að ræða þjónustumál, til dæmis leikskólamál, þjónustu grunnskóla, sorphirðuna, snjómoksturinn og svo framvegis. „Við höldum reglulega íbúafundi, ég auglýsi reglulega sérstaka samtalstíma í ráðhúsinu og nú bætum við samtölum við íbúa á ýmsum stöðum í bænum við.“

 

240220-Gardabaer-Baejarstjoraspjall-5x20-PRENT-002-

Langar að heyra hvað fólki finnst um heildarmyndina

„Ég hugsa þetta sem stutt samtöl og þó ég muni eflaust ekki geta leyst einstök mál á staðnum þá langar mig að heyra hvað fólki finnst um heildarmyndina. Sumt er stórt, annað er smátt, sumt er gott en annað er flóknara. Ég tel að þjónustan sé það sem ljáir þessu bæjarfélagi okkar algjöra sérstöðu,“ segir Almar sem hvetur fólk til að setjast hjá sér og fá sér kaffibolla og spjalla. „Undanfarið hefur ungt fólk verið duglegt að heimsækja mig í ráðhúsið og ég hvet þau til að kíkja við einnig hjá mér en ég vil heyra frá sem flestum og á öllum aldri!“