Alþjóðlegi klósettdagurinn
Alþjóðlegi klósettdagurinn er haldinn19. nóvember. Á Íslandi hafa Umhverfisstofnun og Samorka í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og heilbrigðisnefnda á landinu hrundið af stað verkefni er nefnist ,,Bara piss, kúk og klósettpappír í klósettið"
-
Ekki setja gullfiskinn í klósettið!
Alþjóðlegi klósettdagurinn hefur verið haldinn ár hvert 19. nóvember frá árinu 2013 á vegum Sameinuðu þjóðanna (UN Water). Á Íslandi hafa Umhverfisstofnun og Samorka í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og heilbrigðisnefnda á landinu hrundið af stað verkefni er nefnist ,,Bara piss, kúk og klósettpappír í klósettið" og markmið þess er að draga úr ruslu í fráveitu og þar með álagi á umhverfið okkar. Upplýsingar um verkefnið má sjá á vefsíðunni klosettvinir.is
Úrgangur í fráveitu er vandamál alls staðar á landinu. Auk þess að valda skaða á umhverfinu og rekstri fráveitukerfa, verða sveitarfélög fyrir miklum kostnaði þegar hreinsa þarf dælur og farga úrgangi sem berst í fráveitukerfin. Þegar álag er mikið aukast einnig líkur á bilunum í búnaði þannig að skólp fer óhreinsað út í sjó sem getur valdið hættu bæði fyrir menn og dýr. Þá hafa húslagnir einnig stíflast vegna blautklúta, en þá lendir kostnaður við úrbætur sem og óþægindi á íbúum og eigendum.
Bara piss, kúk og klósettpappír í klósettið
Vissir þú að
- 120 tonn af úrgangi komu inn í hreinsistöðvarnar Klettagarða og Ánanaust í Reykjavík árið 2019 og var urðaður í Álfsnesi.
- 120 tonn af úrgangi eru hálft kíló af rusli í klósettin eða niðurföll á hvern íbúa á höfuðborgarsvæðinu.
- Kostnaður sveitarfélaga vegna aðgerða í tengslum við úrgang í fráveitum hleypur á tugum milljóna króna á ári.
- Hver einstaklingur notar að meðaltali 140 lítra af vatni á dag.
- Lyfjaleifum má alls ekki sturta í klósettið heldur á að fara með þær í næsta apótek eða endurvinnslustöð.
- Lyfjaleifar finnast í íslenskum vötnum og sjó og geta lyfjaleifar í umhverfinu haft skaðleg áhrif á sjávar- og landdýr.
- Blautþurrkur, smokkar, eyrnapinnar, tannþráður og annar úrgangur á að fara í ruslið.
- Ekki á að sturta niður blautþurrkum í klósett sem merktar eru af framleiðanda sem „flushable“ því þær valda einnig álagi á umhverfið og fráveitukerfin.