Ánægja með breytingar á meðal foreldra og starfsfólks leikskóla
Ný Gallup-könnun sýnir að leikskólar í Garðabæ byggja á sterkum grunni og að þær breytingar sem gerðar voru árið 2023 hafa stutt vel við faglegt og öflugt skólastarf.
-
Ný Gallup-könnun sýnir að leikskólar í Garðabæ byggja á sterkum grunni og að þær breytingar sem gerðar voru árið 2023 hafa stutt vel við faglegt og öflugt skólastarf. Foreldrar, starfsfólk og stjórnendur lýsa almennri ánægju með leikskólastarfið.
-
Foreldrar, starfsfólk og stjórnendur lýsa almennri ánægju með leikskólastarfið og fram kemur að dvalartími barna hefur almennt styst um það sem nemur einni klukkustund á viku, úr 39 tímum í 38 tíma.
„Garðabær bjó þegar að góðu leikskólaumhverfi, en markmiðið var að gera gott kerfi enn betra, í þágu barnanna, foreldra og starfsfólks,“ segir Almar Guðmundsson bæjarstjóri um niðurstöður könnunarinnar, en árið 2023 réðst Garðabær í breytingar sem styðja áttu við skipulag og starfsumhverfi leikskóla þannig að tryggja mætti betur stöðugleika í starfinu, farsæld barna og vellíðan starfsfólks.
„Það er nauðsynlegur hluti af breytingum að kanna hvernig til hefur tekist. Þess vegna var hluti af innleiðingunni að leggja fyrir könnun meðal foreldra og starfsfólks. Ég er ánægður með þessar niðurstöður, það skín í gegn að breytingarnar hafa skilað ávinningi fyrir börn, sveigjanlegri fjölskyldusamveru og umhverfi starfsfólks. Að sjálfsögðu eru þarna einnig atriði þar sem hægt er að gera enn betur.“
Svokallaðri fáliðunarreglu hefur verið beitt sjaldnar eftir að breytingarnar gengu í gegn, sem tryggir meiri samfellu í skólastarfi og kemur í veg fyrir tilheyrandi röskun á lífi barna og fjölskyldna.
Í stuttu máli: Staðan í leikskólum í Garðabæ
- Almenn ánægja foreldra og barna með leikskólastarfið
- Sveigjanleiki í fríum og dvalartíma metinn mjög mikils, en 72% foreldra telja hann hafa jákvæð áhrif á skipulag fjölskyldunnar
- Breytingarnar hafa aukið samveru fjölskyldunnar að mati foreldra.
- Breytingarnar hafa aukið stöðugleika leikskólastarfs í Garðabæ að mati foreldra
- Sterkt starfsumhverfi og ánægja starfsfólks er mikil en einnig eru foreldrar ánægðir með starfsumhverfið og skipulag starfsins.
Eins og kunnugt er hefur í gegnum tíðina gengið vel að tryggja ungum börnum dvöl í leikskóla í Garðabæ, sérstaklega ef staðan er borin saman við nágrannasveitarfélög og haft í huga að fjölgun barna er meiri hér en annars staðar. Garðabær hefur náð að innrita börn um 12 mánaða aldur allt þetta skólaár og þegar hafa börn fædd í október 2024 fengið boð um dvöl. Breytingar á leikskólaumhverfinu er þáttur í þessari góðu stöðu, enda sýnir könnunin að starfsumhverfi í leikskólum bæjarins er meira aðlaðandi nú.
Ánægja foreldra með sveigjanleika og þjónustu
Foreldrar eru almennt ánægðir með þjónustu leikskólanna og nefna sérstaklega sveigjanleika í fríum og dvalartíma sem einn helsta styrkleika kerfisins. Margir nefna einnig ánægju með að börn komist snemma inn í leikskóla eftir fæðingarorlof, sem auðveldi bæði foreldrum og börnum aðlögun. Mun fleiri telja að breytingarnar hafi haft jákvæð áhrif á líðan barna sinna í leikskólanum (36%) en neikvæð (8%). 46% foreldra eru ánægð með breytingarnar, 31% segja hvorki/né (eru hlutlaus) og 23% eru óánægð.
Foreldrar hvetja t.d. til áframhaldandi vinnu við að efla upplýsingagjöf til fjölskyldna, svo sem um breytingar á starfsemi.
Sterkt starfsumhverfi og aukin fagmennska
Starfsfólk leikskólanna segir að breytingarnar sem innleiddar voru síðla árs 2023 hafi almennt gengið vel og hafi stuðlað að faglegra umhverfi og bættum starfsanda. 68% þeirra eru ánægð með breytingarnar þegar á heildina er litið en 26% óánægð.
Stjórnendur nefna sérstaklega að styttri dvalartími barna hafi gert auðveldara að manna leikskólana, sem hefur jákvæð áhrif á bæði starfsanda og gæði starfsins. Þá telur meirihluti starfsfólks að breytingarnar hafi leitt til þess að leikskólarnir séu eftirsóknarverðari vinnustaðir en áður.
Könnunin sýnir jafnframt að fleiri fagmenntaðir kennarar sækja í störf hjá leikskólum Garðabæjar, sem styrkir leikskólastarfið enn frekar.
Þó er bent á að útfærsla á styttingu vinnuvikunnar hafi í sumum tilvikum aukið álag, sérstaklega í minni leikskólum.
Samfelld umbótavinna
Garðabær vinnur nú áfram með niðurstöður könnunarinnar í nánu samstarfi við starfsfólk, stjórnendur og foreldra á vettvangi leikskólanefndar.
Markmiðið er að styrkja leikskólastarfið enn frekar, meðal annars með því að:
- stuðla að fjölgun fagmenntaðra starfsmanna
- halda áfram að sinna góðu upplýsingaflæði og þjónustu til fjölskyldna
- og halda áfram reglulegum íslenskunámskeiðum fyrir starfsfólk sem þarf að efla tungumálakunnáttu sína.