1. okt. 2025

Arnarhvoll átti hæsta tilboðið í lóðir í Vetrarmýri

Framkvæmdafélagið Arnarhvoll hf. átti hæsta tilboðið í tvo byggingarreiti Garðabæjar í Vetrarmýri, alls rúmlega 3 milljarða króna. 

Bæjarráð Garðabæjar hefur að fela bæjarstjóra og fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka að hefja viðræður og leita samninga við Arnarhvol hf. um nánari útfærslu og framkvæmd.
Um er að ræða annan áfanga í sölu byggingarrétta á svæðinu en útboði fyrsta áfanga lauk í maí 2022. Í þessum áfanga voru boðnir út u.þ.b. 17.600 fermetrar af fjölbýli og 2.800 fermetrar af atvinnuhúsnæði á tveimur aðskildum reitum.
Alls bárust fjögur tilboð í byggingarréttinn að þessu sinni. Tilboð Arnarhvols er talsvert hærra en hin þrjú tilboðin sem bárust.
Arnarhvoll hf. átti einnig hæsta tilboðið í fyrsta áfanga í Vetrarmýri en þá voru boðnir út fimm aðskildir reitir.
Vetrarmýri í GarðabæVetrarmýri er samtals 20 hektara byggingaland, að fullu í eigu Garðabæjar, sem markast af Hnoðraholti til norðurs, Reykjanesbraut til vesturs, Vífilsstaðavegi til suðurs og golfvelli GKG til austurs. Áætluð heildarstærð byggðar í Vetrarmýri er um 78.000 fermetrar af fjölbýli og 45.000 fermetrar af atvinnuhúsnæði með 785 íbúðum að hámarki.Vetrarmýri er eitt af þremur fyrirhuguðum uppbyggingarsvæðum á Vífilstaðalandi. Við gerð deiliskipulagsins var horft til góðra tenginga við stofnbrautina Reykjanesbraut, almenningssamgöngur og göngu- og hjólastíga og nálægðar við útivistarperlur. Auk þess er aðgengi að nálægri samfélagsþjónustu eins og skólum, leikskólum, íþróttamannvirkjum o.fl. mjög gott.