7. sep. 2018

Áskorun til ráðherra vegna húsnæðismála FG

Á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar fimmtudaginn 6. febrúar sl. var eftirfarandi áskorun samþykkt: „Bæjarstjórn Garðabæjar skorar á mennta- og menningarmálaráðherra að beita sér fyrir því að farið verði strax í stækkun á húsnæði Fjölbrautaskólans í Garðabæ.“

  • Fjölbrautaskólinn í Garðabæ
    Fjölbrautaskólinn í Garðabæ

Á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar fimmtudaginn 6. febrúar sl. var eftirfarandi áskorun samþykkt:

„Bæjarstjórn Garðabæjar skorar á mennta- og menningarmálaráðherra að beita sér fyrir því að farið verði strax í stækkun á húsnæði Fjölbrautaskólans í Garðabæ.“

Greinargerð sem fylgdi með áskoruninni: 
Fjölbrautaskólinn í Garðabæ er með vinsælli framhaldsskólum landsins, vinsældir skólans má ekki síst rekja til öflugra list- og verknámsbrauta. Nauðsynlegt er að hlúa að verk- og listnámi til að tryggja fjölbreytt námsframboð á framhaldsskólastigi. Mjög þröngt er orðið um starfsemina í húsnæði skólans og því afar mikilvægt að tryggja fjármagn í viðbyggingu og koma þannig til móts við fjölda umsækjenda og til móts við fyrirheit ráðamanna um eflingu verk- og listnáms í landinu.

Staðið hefur til að stækka húsnæði skólans í meira en áratug, byggingarnefnd var skipuð árið 2007 sem starfaði fram í desember 2008. Á þessum árum hefur orðið mikil fólksfjölgun í sveitarfélaginu til viðbótar við sameiningu sveitarfélaganna Garðabæjar og Álftaness. Áframhaldandi uppbygging og fjölgun er fyrirhuguð í sveitarfélaginu. 

Í haust bárust yfir 600 umsóknir í skólann í fyrsta og annað val. Það er því ljóst að mikil aðsókn er í skólann og færri komast að en vilja. Margir af þeim sem sóttu um skólavist í FG en fengu neitun um inngöngu eru ungmenni sem búsett eru í Garðabæ og vilja stunda nám í sinni heimabyggð. Garðabær hefur lagt mikla áherslu á að í sveitarfélaginu séu góðir skólar þar sem ríkir metnaður til að gera vel og að árangur sé góður.  

Í sumar, nánar tiltekið 6. júní sl., sendu formaður og varaformaður skólanefndar FG, skólameistari ásamt bæjarstjóra Garðabæjar bréf til mennta- og menningarmálaráðherra þar sem bent var á brýna húsnæðisþörf skólans. 

Garðabær skorar á mennta- og menningarmálaráðherra að tryggja fjármagn þannig að framkvæmdir við viðbyggingu skólans geti hafist sem fyrst.