Aukin sálfræðiþjónusta fyrir börn
Gunnar Einarsson, bæjarstjóri og Tanja Dögg Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Mín líðan undirrituðu þann 28. maí sl. samning um aukna sálfræðiþjónustu fyrir börn á elsta stigi grunnskóla Garðabæjar sem eru að glíma við kvíða.
-
Tanja Dögg Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Mín líðan og Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar
Gunnar Einarsson, bæjarstjóri og Tanja Dögg Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Mín líðan undirrituðu þann 28. maí sl. samning um aukna sálfræðiþjónustu fyrir börn á elsta stigi grunnskóla Garðabæjar sem eru að glíma við kvíða.
Verkefnið er tilraunaverkefni sem unnið verður af sálfræðingi á vegum nýsköpunarfyrirtækisins Mín líðan sem hefur þróað sálfræðiviðtöl í gegnum fjarvinnslu. Nemendur eiga kost á nokkrum viðtölum við sálfræðing á netinu sem aðstoðar þau og leiðbeinir. Fyrstu viðtölin verða í boði fyrir nemendur í Sjálandsskóla nú við lok þessa skólaárs og halda svo áfram þegar skólastarf hefst í haust einnig í öðrum skólum sveitarfélagsins og fram að áramótum. Þá verður verkefnið tekið út og endurmetið.
Eiríkur Björn Björgvinsson, sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs Garðabæjar, segir að verkefnið sé hugsað sem viðbót við þá mikilvægu sálfræðiþjónustu sem veitt er af sálfræðingum skólaþjónustu sveitarfélagsins. „Við viljum ná til þeirra nemenda í elstu bekkjum grunnskóla Garðabæjar sem eru að glíma við kvíða og eru ekki að njóta þjónustu okkar sálfræðinga í dag. Við viljum aðstoða þau við að ná tökum á kvíðanum eða leiðbeina þeim um hugsanlega frekari aðstoð. Verkefnið er unnið í fjarþjónustu og áhugaverð leið til að ná til og þjónusta nemendur.“
Mín líðan er ungt fyrirtæki sem veitir nýja leið í sálfræðiþjónustu á Íslandi og er fyrsta íslenska fjargeðheilbrigðisþjónustan sem fær leyfi til reksturs frá Embætti landlæknis. Mín líðan hlaut verðlaun fyrir vefkerfi ársins 2018 á Íslensku vefverðlaununum sem veitt eru af Samtökum vefiðnaðarins.