Stóraukin þjónusta Strætó í Garðabæ
Frá og með 17. ágúst nk. mun Strætó í samstarfi við Garðabæ stórauka þjónustu sína í þeim leiðum sem fara um bæinn. Það eru miklar gleðifréttir fyrir börn og ungmenni í bænum og öll þau sem kjósa að nýta almenningssamgöngur.
-
Frá og með 17. ágúst nk. mun Strætó í samstarfi við Garðabæ stórauka þjónustu sína í þeim leiðum sem fara um bæinn. Það eru miklar gleðifréttir fyrir börn og ungmenni í bænum og öll þau sem kjósa að nýta almenningssamgöngur.
Frá og með 17. ágúst mun Strætó auka þjónustu sína að beiðni Bæjarstjórnar Garðabæjar á leiðum 22 og 23 þegar kvöldakstur hefst. Auk þess verður tíðni ferða á leiðum 21 og 24 aukin úr 30 mínútum í 15 mínútur á annatíma. Garðabær greiðir fyrir þjónustuaukninguna en innanbæjarleiðir eru greiddar af sveitarfélögunum sem standa að Strætó.
Leiðir 22 og 23 verða ekki lengur í pöntunarþjónustu á kvöldin og um helgar heldur aka samkvæmt tímatöflu. 30 mín tíðni virka daga og um helgar. Síðasta ferð á leið 22 verður kl. 22:14. Síðasta ferð á leið 23 verður kl. 22:17.
„Það er mjög ánægjulegt að kvöldakstur sé að hefjast á leiðum 22 og 23, að sama skapi er tíðni að aukast á leiðum 21 og 24 sem eru mikilvægar leiðir fyrir okkur Garðbæinga. Markmiðið með kvöldakstrinum er að auðvelda ungmennum að komast til og frá íþrótta-, tómstunda- og félagsmiðstöðvastarfi víðs vegar um bæinn, en þessi ákvörðun var tekin eftir góða vinnu með ungmennaráði Garðabæjar,“ segir Hrannar Bragi Eyjólfsson, bæjarfulltrúi, formaður íþrótta- og tómstundaráðs Garðabæjar og stjórnarmaður Strætó frá Garðabæ.
„Ég sé ástæðu til að hrósa ungmennaráði sérstaklega fyrir góð og fagleg vinnubrögð og þakka þeim mjög gott samstarf. Með þessari þjónustuaukningu styrkjast almenningssamgöngur í bænum og það verður gaman að fylgjast með viðbrögðum og notkun Garðbæinga á næstu misserum,“ bætir Hrannar Bragi við.
Meðfylgjandi eru nýjar tímatöflur fyrir leið 22 og 23. Allar nýjar tímatöflur má nálgast á vef Strætó.