2. jún. 2022

Bæjarstjóri í 17 ár

Gunnar Einarsson bæjarstjóri lét af störfum í lok maí eftir síðasta kjörtímabil eftir að hafa gegnt starfi bæjarstjóra Garðabæjar síðustu 17 ár eða frá árinu 2005. 

  • Gunnar Einarsson
    Gunnar Einarsson bæjarstjóri kvaddur

Gunnar Einarsson bæjarstjóri lét af störfum í lok maí eftir síðasta kjörtímabil eftir að hafa gegnt starfi bæjarstjóra Garðabæjar síðustu 17 ár eða frá árinu 2005.  Gunnar hefur þó starfað enn lengur fyrir bæinn eða hartnær 40 ár þar sem hann kom fyrst til starfa 25 ára gamall sem íþrótta- og tómstundafulltrúi og síðar sem forstöðumaður fræðslu- og menningarsviðs áður en hann settist í bæjarstjórastólinn.

Á ferli sínum sem bæjarstjóri sat Gunnar nánast alla bæjarstjórnarfundi eða vel yfir 300 fundi. Í byrjun maí sat Gunnar sinn síðasta bæjarstjórnarfund en á þessum tíma hefur Gunnar einnig setið hátt í 800 bæjarráðsfundi sem bæjarstjóri og líklega vel yfir 1000 bæjarráðsfundi ef tíminn sem hann gegndi hlutverki forstöðumanns fræðslu- og menningarsviðs er talinn með. 

 Í yfirlýsingu sem Gunnar gaf út í vetur þar sem hann sagði frá því að hann myndi láta af störfum í vor var honum efst í huga þakklæti ,,Þakklæti fyrir að fá tækifæri til að hafa áhrif á samfélagið Garðabæ, að starfa með frábæru samstarfsfólki hvort heldur í stjórnmálum og/eða í starfi mínu sem embættismaður og síðast en ekki síst almennt góð samskipti við bæjarbúa“.

Starfsmenn ráðhúss Garðabæjar héldu kveðjukaffi í lok maí þar sem Gunnar var kvaddur og farið yfir farinn veg í samstarfi liðinna ára. Gunnar sagðist við það tækifæri hætta sáttur og ánægður með þær framfarir sem hafa átt sér stað í vexti og þróun bæjarins og samfélagsins í Garðabæ.