1. sep. 2020

Bættar almenningssamgöngur í Urriðaholti

Á fundi bæjarráðs Garðabæjar í morgun, þriðjudaginn 1. september, var lögð fram tillaga um almenningssamgöngur í Urriðaholti. Gert er ráð fyrir að akstursleið verði frá skóla- og íþróttasvæði við Ásgarð að Urriðaholti þar sem ekið verður hring um hverfið að Urriðaholtsskóla og aftur í Ásgarð. Í Urriðaholti verða 3-4 biðstöðvar fyrir strætó.

  • Urriðaholt í Garðabæ
    Séð yfir Urriðaholt

Urriðaholt er eitt nýjasta hverfi Garðabæjar þar sem mikil uppbygging hefur átt sér stað á síðustu misserum. Hátt í 2500 manns búa nú í hverfinu og gert ráð fyrir allt að 4500 íbúum í Urriðaholti þegar það verður fullbyggt. Í skipulagi Urriðaholts er gert ráð fyrir að Strætó aki hring um Urriðaholtið og hefur það verið í skoðun um tíma með hvaða hætti best væri að útfæra þjónustu almenningssamgangna í hverfinu. Garðabær og leiðakerfissérfræðingar Strætó hafa verið í viðræðum um tillögur um almenningssamgöngur í Urriðaholti á undanförnum mánuðum.

Þróunarverkefni sem hefst í haust

Á fundi bæjarráðs Garðabæjar í morgun, þriðjudaginn 1. september, var lögð fram tillaga um almenningssamgöngur í Urriðaholti ásamt viðauka við fjárhagsáætlun ársins vegna viðbótarkostnaðar. Í tillögunni er gert ráð fyrir að uppbygging þjónustu almenningssamgangna í Urriðaholti verði þróunarverkefni til eins árs frá september 2020 - september 2021 þar sem nýting verði skoðuð og verkefnið metið með jöfnu millibili til að hægt sé að bæta úr verði þess þörf. Á háannatíma á virkum dögum verður ekið á hálftímafresti með 18 manna strætisvagni en utan þess tíma verður boðið upp á pöntunarþjónustu á klukkutímafresti á virkum dögum og um helgar fyrir sérmerktar ferðir á tímatöflu þar sem panta þarf bíl með amk 30 mínútna fyrirvara.
Bæjarráð samþykkti að leggja tillöguna fyrir bæjarstjórn Garðabæjar sem fjallar um tillöguna á næsta fundi sínum 3. september nk.

Strætóleiðin: Urriðaholt – Ásgarður

Gert er ráð fyrir að akstursleið verði frá skóla- og íþróttasvæði við Ásgarð að Urriðaholti þar sem ekið verður hring um hverfið að Urriðaholtsskóla og aftur í Ásgarð. Í Urriðaholti verða 3-4 biðstöðvar fyrir strætó. Skv. tillögunni sem er til umfjöllunar verður farið af stað með eftirfarandi áætlun og ráðgert að hægt verði að hefja akstur mánudaginn 7. september nk.
VIRKIR DAGAR
18 manna strætisvagn í áætlun:
Á hálftíma fresti á annatíma frá kl. 7:00-9:00 og frá kl. 14:00-18:00.
Pöntunarþjónusta*:
Á klukkutímafresti frá kl. 09:30-13:30 og frá 18:30-23:30
HELGAR:
Pöntunarþjónusta*:
Laugardagar frá kl. 08:30-23:30 á klukkutíma fresti
Sunnudagar frá kl. 09:30-23:30 á klukkutíma fresti

 (*Pöntunarþjónusta er fyrir sérmerktar ferðir á tímatöflu þar sem panta þarf bíl með amk 30 mínútna fyrirvara. Pöntunarþjónusta er gerð í samstarfi við leigubílaþjónustu en greitt fyrir sem samsvarar strætófargjaldi.) 

Umhverfisvænt hverfi í sókn

Í uppbyggingu Urriðaholts hefur verið mikil áhersla á að byggðin sé umhverfisvæn og í góðum tengslum við náttúruna í kring. Urriðaholt var fyrsta hverfið á Íslandi til að fá vistvottun skipulags samkvæmt vottunarkerfi ,,BREEAM Communities“ sem er ætlað að tryggja lífsgæði og umhverfisvernd með vistvænu skipulagi byggðarinnar. Sjálfbærar ofanvatnslausnir eru í hverfinu sem eru fyrstu sinnar tegundar í íbúabyggð á landinu. Þó að stutt sé í náttúruna úr Urriðaholti liggur hverfið vel við í góðar samgönguæðar þar sem stutt er í Reykjanesbrautina.