12. apr. 2024

Barnamenningarhátíð í Garðabæ

Fjölskyldur í Garðabæ og þeirra gestir eiga því von á innihaldsríkri og skemmtilegri Barnamenningarhátíð í Garðabæ!

Börn í Garðabæ fá að skapa, njóta og upplifa vikuna 22. – 27. apríl en þá fer fram Barnamenningarhátíð Garðabæjar sem lýkur með dagskrá fyrir alla fjölskylduna.

Dagskrá fyrir skólahópa fer fram dagana 22. – 26. apríl í Hönnunarsafni Íslands, á Bókasafni Garðabæjar, í Minjagarðinum á Hofsstöðum og á Garðatorgi.

Nemendur í 1. bekk taka þátt í danspartýi með yfirskriftinni Dansað um heiminn en partýin fara fram á Garðatorgi 4 og þau Friðrik Agni og Anna Claessen leiða dansinn. Allt að 60 börn dansa í hvert skipti en á laugardegi er fjölskyldum boðið í dans klukkan 15 á torginu við hlið apóteksins.

Nemendur í 3. bekk hitta þjóðfræðinginn Dagrúnu Ósk Jónsdóttur í Minjagarðinum á Hofsstöðum og skyggnast inn í líf landnámskrakka sem bjuggu einmitt í bænum sem stóð þar sem Minjagarðurinn er núna. Í gegnum margmiðlunarsjónauka geta nemendur skyggnst inn í fortíðina og Dagrún Ósk um leiða hugleiðingar og spjall um lífið á landnámstíma. Dagrún Ósk tekur á móti fjölskyldum klukkan 14 laugardaginn 27. apríl í Minjagarðinum.

Nemendur í 5. bekk taka þátt í ritsmiðju með rithöfundinum Bergrúnu Írisi sem mun leiða vinnu sem opnar leiðir fyrir nemendum til að gera betri sögur og söguþráð. Ritsmiðjurnar fara fram á Bókasafni Garðabæjar.

Nemendur í 7. bekk skoða svo sýninguna Hönnunarsafnið sem heimili og pæla í sínum uppáhalds hönnunargripum sem fyrir augu ber á Hönnunarsafninu. Nemendur fá bingóspjöld sem kveikja á hugrenningatengslum milli orða á spjaldi og þess sem fyrir augu ber og í kjölfarið skrifa nemendur texta sem tengist uppáhaldssafngripunum sínum.

Tvær sýningar verða auk þess opnaðar á Barnamenningarhátíð en það er sýningin Forsetinn minn á Bókasafni Garðabæjar en það eru 5 ára nemendur Sjálandsskóla og Barnaskóla Hjallastefnunnar sem hafa unnið sýninguna. Hin sýningin er Eldblómahaf í Hönnunarsafni Íslands en það eru allir nemendur í 4. bekk í grunnskólum Garðabæjar sem eiga veg og vanda að sýningunni sem unnin er í smiðjum með danshöfundinum Siggu Soffíu og hönnuðinum Siggu Sunnu.

Laugardaginn 27. apríl fer svo fram fjölbreytt dagskrá fyrir alla fjölskylduna sem hefst með ástandsskoðun og þrautabraut frá DR. Bæk sem hefst kl. 11. Klukkan 12 hefst svo Draugafræðsla á Bókasafninu með Björk Bjarnadóttur þjóðfræðingi sem segir hræðilegar, áhugaverðar og fyndnar draugasögur og allir þátttakendur fá afhentan galdrastafinn Salómons innsigli sem er sterk vörn gegn draugum. Allir ættu því að vera öryggir eftir þessa æsispennandi fræðslu. Klukkan 13 hefst svo Eldblómasmiðja í Hönnunarsafninu þar sem Þykó eldblóm verða til úr ullargarni, silkipappír og allskonar fjölbreyttum efniviði. Það eru stöllurnar Sigga Soffía og Sigga Sunna sem leiða smiðjuna en þær tóku einmitt á móti öllum 4. bekkingum í smiðjur og afraksturinn er sýndur á safninu. Í Minjagarðinum á Hofsstöðum gefst svo fjölskyldum færi á að skyggnast inn í fortíðina með Dagrúnu Ósk þjóðfræðingi sem leiðir pælingar um lífið í landnámsbænum sem stóð á Hofsstöðum, dagskráin í Minjagarðinum hefst kl. 14 og í kjölfarið geta fjölskyldur skottast niður á Garðatorg og tekið þátt í danspartýii með Friðriki Agna og Önnu Claessen sem hefst kl. 15.

Fjölskyldur í Garðabæ og þeirra gestir eiga því von á innihaldsríkri og skemmtilegri Barnamenningarhátíð í Garðabæ!