Bjarni Thor Kristinsson er bæjarlistamaður Garðabæjar
Bjarni Thor Kristinsson óperusöngvari er bæjarlistamaður Garðabæjar árið 2020.
-
Frá vinstri: Gunnar Valur Gíslason formaður menningar- og safnanefndar, Bjarndís Lárusdóttir í menningar- og safnanefnd, Bjarni Thor Kristinsson bæjarlistamaður Garðabæjar, Gunnar Einarsson bæjarstjóri, Hrannar Bragi Eyjólfsson í menningar- og safnanefnd Garðabæjar.
Bjarni Thor Kristinsson óperusöngvari er bæjarlistamaður Garðabæjar árið 2020. Tilkynnt var um val á bæjarlistamanni Garðabæjar við athöfn sem var haldin í Sveinatungu á Garðatorgi þann 16. júní. Við sama tilefni var tilkynnt um úthlutun úr Hvatningarsjóði ungra listamanna í Garðabæ þar sem verkefni einstaklinga og samstarfshópa hlutu styrk. Þá hlaut Hallfríður Ólafsdóttir flautuleikari og höfundur bókanna um Maxímús Músíkús sérstaka heiðursviðurkenningu fyrir mikilvægt framlag til menningar og lista.
Um Bjarna Thor
Bjarni Thor Kristinsson hóf söngnám 18 ára en fór til Vínarborgar í framhaldsnám árið 1994 og vorið 1997 var hann ráðinn sem aðalbassasöngvari þjóðaróperunnar í Vín. Eftir nokkurra ára fastráðningu þar fór Bjarni víða um heim þar sem hann hefur sungið ýmis hlutverk í óperum sem lausráðinn söngvari.
Bjarni Thor hefur verið tíður gestur í Ríkisóperunni í Berlín en auk þess komið fram í mörgum af bestu óperuhúsum heims s.s. í Chicago, Róm, Veróna, París, Palermo og Lissabon.
Bjarni Thor hlaut Grímuna fyrir hlutverk Osmin í ,,Brottnáminu úr kvennabúrinu“ hjá Íslensku óperunni árið 2006. Bjarni hefur að mestu sungið erlendis undanfarin ár, nú síðast í Parma á Ítalíu þar sem hann var við æfingar þegar kórónuveirufaraldurinn fór af stað. Framundan voru verkefni í Þýskalandi og í Japan er óvíst er hvenær óperuhús heimsins fara að starfa á ný.
Bjarni Thor hefur í áratugi unnið sig upp á sviði óperunnar en er einnig gífurlega skemmtilegur á tónleikasviði og öflugur leikstjóri. Bjarni Thor vakti mikla athygli í Covid-faraldrinum í vor um hvernig söngvari lifir sóttkví af með skemmtilegu bloggi.