28. júl. 2022

Blómum prýtt hringtorg við Bessastaði

Stórt hringtorg sem markar aðkomu inn á Álftanesið, þar sem Álftanesvegur mætir Suðurnesvegi, Norðurnesvegi og Bessastaðavegi í átt að forsetasetrinu á Bessastöðum, hefur nú tekið á sig nýja og betri mynd með fallegum gróðri.

  • Hringtorg við Álftanesveg
    Blómum prýtt hringtorg við Álftanesveg

Stórt hringtorg sem markar aðkomu inn á Álftanesið, þar sem Álftanesvegur mætir Suðurnesvegi, Norðurnesvegi og Bessastaðavegi í átt að forsetasetrinu á Bessastöðum, hefur nú tekið á sig nýja og betri mynd með fallegum gróðri.

Það hefur lengi verið áhugi á að fegra og lagfæra hringtorgið á þessum stað þar sem malarhringtorg var áður. Undirbúningur hefur staðið yfir í nokkurn tíma en í vor var farið af stað með að fá verktaka til að keyra í og jafna út moldarblöndu á hringtorgið. Mælt var út fyrir trjábeði og svo þökulagt í framhaldinu af garðyrkjudeild bæjarins ásamt sumarstarfstarfsmönnum garðyrkjudeildar. Landslag ehf sá um hönnun á trjábeðinu og plöntur voru settar niður samkvæmt hönnun Landslags og Helle Laks garðyrkjumeistara. Birkitré voru sett niður í hvern botn í trjábeðinu, stór sýrena fyrir miðju og fyllt var upp með runnum. Heitin á runnunum eru: Japanskvistur (Golden Princess og Manon), Grákvistur, Færeyjarrifs, Myrtuvíðir, Berjablátoppur, Stórkvistur, Silfurblað, Þyrnirós ´Katrín viðar' og Runnamura ‘Gold teppich'.

„Trjábeðið hefur verið sandað og er vökvað þegar þörf er á og ætlunin er að halda þessu hringtorgi í góðu viðhaldi í slætti og hreinsun um ókomin ár, okkur öllum til sóma“ segir Smári Guðmundsson garðyrkjustjóri Garðabæjar. 

Fegrun hringtorga bæjarins

Á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar sem haldinn var 16. júní sl. var samþykkt tillaga um að fela menningar- og safnanefnd og umhverfisnefnd að vinna tillögur um hvernig staðið verði að nafngiftum og fegrun hringtorga bæjarins. Jafnframt skulu nefndirnar vinna með tækni- og umhverfissviði að fegrun hringtorga bæjarins.  Í greinargerð með tillögunni var m.a. bent á að hringtorg bæjarins setja mikinn svip á bæinn og eiga að vera prýði fyrir bæjarbúa og vegfarendur.