7. apr. 2020

Bókasafn Garðabæjar í samkomubanni

Bókasafn Garðabæjar er lokað í samkomubanni en starfsfólk safnsins situr þó ekki auðum höndum. Margrét Berndsen Sigurgeirsdóttir, forstöðumaður safnsins segir okkur frá því hvað starfsmenn hafa fyrir stafni dagana.

  • Rafrænar sögur og söngur með Þórönnu verður í apríl.
    Beint streymi verður frá viðburðinum sögur og söngur með Þórönnu í apríl.

Bókasafn Garðabæjar er lokað í samkomubanni en starfsfólk safnsins situr þó ekki auðum höndum. Margrét Berndsen Sigurgeirsdóttir, forstöðumaður safnsins segir okkur frá því hvað starfsmenn hafa fyrir stafni þessa dagana.

Hvað erum við að gera í Bókasafni Garðabæjar?

Starfsfólk er bókstaflega að þrífa hvern krók og kima á báðum söfnum, Garðatorgi og Álftanesi. Hver einasta bók er tekin og þrifin ásamt hillum, borðum og stólum. Við förum yfir hvert gagn og göngum úr skugga að það sé á réttum stað. Stundum týnast gögn t.d. bækur eða mynddiskur ef það er sett á rangan stað, í ranga hillu í röngum bókagangi. Því er þetta þörf yfirferð til að allt sé á sínum stað.

Við erum einnig að endurraða og stilla hillum aðeins öðruvísi upp í þeim tilgangi að nýta húsnæðið betur. Við erum að taka tillit til viðburða og klúbba sem við bjóðum upp á og þurfum svæði fyrir. Við munum senda út kynningarmyndband um breytingarnar í lok apríl.

Viðburðir á Facebook

Eins og flestir vita er bókasafnið lokað í bili fyrir gestum. Við höldum áfram að bjóða upp á allskonar viðburði á Facebook. Þar var til dæmis hægt að hlýða og horfa á „Sögur og söngur með Þórönnu“, létt páskaföndur með starfsmanni bókasafnsins, spjall við forstöðumann, myndband frá vinnu starfsmanna í samkomubanni og fleira. Við munum halda áfram að kynna hvað starfsmenn eru að gera og segja frá uppáhalds bók og fleiru skemmtilegu.

Framundan er lestrarstund með rithöfundinum Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur í beinu streymi frá Bókasafni Garðabæjar miðvikudaginn 15. apríl kl. 13:00. Hún les upp úr bókum sínum Vinur minn vindurinn og Sjáðu mig sumar af sinni einstöku snilld!

Sögur og söngur fyrir 2 til 6 ára börn með Þórönnu verður aftur á dagskrá í apríl og verður auglýstur á Facebook og vefsíðu bókasafnsins þegar nær dregur.

Bókasafnið ætlar síðan að vinna í samstarfi við Lestrarklefann við að búa til stutta umræðuþætti um bókmenntir sem verða sýndir einu sinni í viku í beinu streymi frá Facebooksíðu bókasafnsins í apríl. Bókasafninu verður því umbreytt í hálfgert sjónvarpssett á tímabili. Í hverjum þætti koma skemmtilegir viðmælendur og ræða saman um bækur og lestrarupplifun sína. Þá verður meðal annars fjallað um nýjustu íslensku skáldverkin, barnabækur, ljóð og glæpasögur.

Við hvetjum fólk að fylgjast með fréttum um samkomubann og hvenær lokuninni verður aflétt. Bækur og önnur gögn eru nú komin með nýjan skiladag sem er 14. maí. Biðjum við fólk að geyma gögnin heima þar til við opnum aftur. Eitt er víst að við hlökkum mikið til að taka aftur á móti gestum.