22. feb. 2022

Breytingar á þjónustu og viðhaldi gatnalýsingar í Garðabæ

Í kjölfar uppsagnar HS Veitna á þjónustu og viðhaldi gatnalýsingar í Garðabæ, sem er um það bil 1/3 af gatnalýsingarkerfinu, var ákveðið að segja upp samningi við Orku náttúrunnar (ON) og bjóða út þessa þjónustu í öllu sveitarfélaginu.

Í kjölfar uppsagnar HS Veitna á þjónustu og viðhaldi gatnalýsingar í Garðabæ, sem er um það bil 1/3 af gatnalýsingarkerfinu, var ákveðið að segja upp samningi við Orku náttúrunnar (ON) og bjóða út þessa þjónustu í öllu sveitarfélaginu. Þessi tvö veitufyrirtæki höfðu séð um alla gatna- og stígalýsingu frá því að hún var fyrst sett upp eða í meira en 50 ár.

Með tilkomu LED-lampa í gatnalýsingu verður umtalsverður sparnaður í rekstri hennar þar sem gert er ráð fyrir að orka og viðhald lækki um að minnsta kosti 70%. Í Garðabæ eru 4.068 lampar í götu- og stígalýsingarkerfinu og búið er að setja upp 320 LED-lampa auk þess sem 1.830 lampar eru í útboðsferli og verða settir upp á næstu þrem árum. LED-væðingin er kostnaðarsöm en sparnaðurinn vinnur kostnaðinn upp á 6-7 árum með lömpum sem eiga að endast í 20-25 ár eða 100.000 klst án þess að skipta um ljósgjafa.

Nú 1. febrúar tók Rafal ehf við þjónustu og viðhaldi gatnalýsingar í Garðabæ eftir sameiginlegt útboð Garðabæjar, Hafnarfjarðar og Vegagerðarinnar og nær samningurinn til þriggja ára. Á sama tíma færist öll umsjón með kerfinu og utanumhald á gagnagrunnum og landupplýsingum til sveitarfélagsins sem hefur samið við Loftmyndir ehf um umsjón með þessum upplýsingum. Mælst er til þess að íbúar hafi samband við þjónustuverið í síma 525 8500 varðandi bilanir og ábendingar eða komi þeim á framfæri á ábendingarvefnum.