16. apr. 2019

Byggingarleyfisumsóknir rafrænar að öllu leyti

Garðabær er með þeim fyrstu af stærri sveitarfélögum landsins til að taka í notkun nýja útgáfu af ONE land hugbúnaðarlausninni sem gerir nú allt ferli vegna byggingarleyfisumsókna hjá Garðabæ rafrænt. 

  • Kynningarfundur um rafrænt ferli byggingarleyfisumsókna
    Kynningarfundur um rafrænt ferli byggingarleyfisumsókna

Garðabær er með þeim fyrstu af stærri sveitarfélögum landsins til að taka í notkun nýja útgáfu af ONE land hugbúnaðarlausninni sem gerir nú allt ferli vegna byggingarleyfisumsókna hjá Garðabæ rafrænt. ONE land er hluti af málaskráningarkerfi Garðabæjar.

Áður var sjálf byggingarleyfisumsóknin á rafrænu formi en nú eru líka önnur tengd eyðublöð, s.s. greinargerðir hönnunarstjóra o.fl. rafræn. Með breyttu rafrænu verklagi sem tók gildi 15. apríl sl. er ætlunin að einfalda ferlið þegar sótt er um byggingarleyfi hjá Garðabæ og gera það skýrara fyrir hlutaðeigandi. Markmiðið er að bæta bæði rafræna stjórnsýslu Garðabæjar og þjónustu við byggingaraðila.

Rafrænar umsóknir Garðabæjar eru á Mínum Garðabæ, vefgátt fyrir íbúa og aðra viðskiptavini Garðabæjar, þar sem viðskiptavinir geta skráð sig inn með íslykli eða rafrænum skilríkjum. Umsóknir þar berast sjálfkrafa inn í málaskráningarkerfi Garðabæjar.

Nýjungar í rafrænu ferli byggingarleyfisumsókna

Með nýju rafrænu ferli geta byggingaraðilar séð eftirfarandi inni á Mínum Garðabæ í þeim umsóknum sem við á:
• Hönnuðir, byggingarstjórar og iðnmeistarar geta skráð sig á verk með rafrænum skilríkjum.
• Eigandi lóðar sér gögn málsins og stöðu þess.
• Hönnuðir sem sækja um byggingarleyfi fyrir hönd eiganda sjá gögn málsins og stöðu þess.
• Hönnunarstjórar, byggingarstjórar og meistarar geta séð þau verk sem þeir eru skráðir á.
• Hönnuðir geta sent inn teikningar rafrænt til yfirferðar hjá byggingarfulltrúa.

Vel sóttur kynningarfundur fyrir hagsmunaðila

Föstudaginn 12. apríl sl. stóð Garðabær fyrir kynningarfundi fyrir hagsmunaðila í samvinnu við fyrirtækið ONE systems sem þjónustar Garðabæ með ONE land málaskráningarkerfið og vefgáttina Minn Garðabær. Á fundinum voru byggingarstjórar, iðnmeistarar og hönnuðir sem hafa verið í miklum samskiptum við Garðabæ í tengslum við byggingarleyfisumsóknir. Þeir Ingimar Arndal framkvæmdastjóri ONE systems og Hrafnkell Erlendsson hjá One systems kynntu breytt verklag við umsóknir um byggingarleyfi og tengdar umsóknir í kerfinu. Á fundinum var líka Anna Guðrún Gylfadóttir byggingarfulltrúi Garðabæjar ásamt fleiri starfsmönnum Garðabæjar og gátu svarað spurningum fundargesta. Góðar og gagnlegar umræður voru að lokinni kynningu um breytt verklag.

 Hrafnkell Erlendsson hjá ONE systems,  Ingimar Arndal framkvæmdastjóri ONE systems og Anna Guðrún Gylfadóttir byggingarfulltrúi Garðabæjar

Hér má sjá hvaða umsóknir eru aðgengilegar á Mínum Garðabæ undir byggingarmál.

Leiðbeiningar um umsókn um byggingarleyfi hjá Garðabæ.