Dagatöl leik- og grunnskóla Garðabæjar á rafrænu formi
Dagatöl leik- og grunnskóla Garðabæjar eru nú aðgengileg á rafrænu formi. Sú nýjung gerir foreldrum og forráðafólki kleift að flytja skóladagatöl inn í sitt almanak með einföldum hætti.
Dagatöl leik- og grunnskóla Garðabæjar eru nú aðgengileg á rafrænu formi, foreldrar og forráðafólk geta með einföldum hætti sótt dagatöl og flutt inn í sitt almanak, hvort sem það er í umhverfi Google, Apple eða Microsoft Outlook. Útbúin hafa verið tvö dagatöl, eitt fyrir leikskólastig og annað fyrir grunnskólastig.
Markmiðið með því að bjóða upp á skóladagatöl í rafrænu formi er að veita foreldrum og forráðafólki góða yfirsýn á einfaldan og aðgengilegan hátt. Ef breytingar eru gerðar á rafrænum dagatölum, til dæmis ef nýir viðburðir eru settir inn eða núverandi viðburðir færðir til, þá uppfærist dagatalið sjálfkrafa hjá þeim sem hafa sótt það.
Leiðbeiningar um hvernig er hægt að nálgast skóladagatöl Garðabæjar á rafrænu formi má finna á vef Garðabæjar.