6. mar. 2024

Dagur talþjálfunar 6. mars 2024

Talmeinafræðingar Garðabæjar leggja mikið upp úr góðu samstarfi við starfsfólk leikskólanna ásamt foreldrum þeirra barna sem þeir sinna, veita ráðgjöf og leiðbeiningar um einstaklingsmiðuð markmið í kjölfar greiningar. 

Ár hvert, þann 6. mars er Evrópudagur talþjálfunar haldinn hátíðlegur á meðal talmeinafræðinga í Evrópu. Dagurinn er ætlaður sem almenn vitundarvakning á störfum og þjónustu talmeinafræðinga. Í ár er yfirskriftin talmeinafræðingar í teymi þar sem horft er á mikilvægi þess að virkja og efla samstarf og teymisvinnu talmeinafræðinga við aðrar fagstéttir. Heildrænt samstarf talmeinafræðinga við aðrar fagstéttir í þágu einstaklinga með frávik í tali og máli er lykilþáttur í farsæld þeirra.

Í Garðabæ starfa tveir talmeinafræðingar á leikskólasviði og eru þeir hluti af sérfræðiþjónustu Garðabæjar. Þeir sitja í skólaþjónustuteymi með öðrum fagaðilum innan Garðabæjar. 

Talmeinafræðingar Garðabæjar leggja mikið upp úr góðu samstarfi við starfsfólk leikskólanna ásamt foreldrum þeirra barna sem þeir sinna, veita ráðgjöf og leiðbeiningar um einstaklingsmiðuð markmið í kjölfar greiningar. Þeir veita foreldramiðaða ráðgjöf til að efla samskipti og málumhverfi á heimili barnins og eru til stuðnings við starfsfólk.

 

Ávinningurinn að því að styðja við einstaklinga með tal - og málmein er gríðarlegur, ekki bara fyrir einstaklinginn heldur fyrir samfélagið í heild.

Talmeinafræðingar eru heilbrigðisstétt en starfssvið þeirra snýr að greiningu og meðferð á vanda sem tengist tali, máli og kyngingu. Aðkoma talmeinafræðinga getur skipt máli á öllum æviskeiðum, hjá ungabörnum, á leik-, grunn- og framhaldsskólaaldri og hjá fullorðnum og öldruðum. Hljóðkerfisröskun, raddvandamál, kyngingartregða, málþroskaröskun DLD, málstol, vitræn tjáskiptaskerðing, heyrnarskerðing og fæðuinntökuvandi barna eru örfá dæmi um þau vandamál sem talmeinafræðingar sinna. 

Starf þeirra felst í því að greina vandann og leggja upp meðferðaráætlun sem getur bæði falið í sér sértæka þjálfun talmeinafræðings og/eða ráðgjöf til aðstandenda og fagaðila í umhverfi einstaklingsins.