15. maí 2019

Deiliskipulag friðlands og fólkvangs í Gálgahrauni og Garðahrauni

Tillögur að deiliskipulagi friðaðra svæða í Gálgahrauni og Garðahrauni eru í vinnslu hjá Garðabæ um þessar mundir. Um er að ræða þrjú friðlýst svæði, friðlandið Gálgahraun (108 ha), fólkvanginn Garðahraun neðra (21 ha) og fólkvanginn Garðahraun efra (58 ha)

  • Fógetastígur í Gálgahrauni
    Fógetastígur í Gálgahrauni

Tillögur að deiliskipulagi friðaðra svæða í Gálgahrauni og Garðahrauni eru í vinnslu hjá Garðabæ um þessar mundir. Um er að ræða þrjú friðlýst svæði, friðlandið Gálgahraun (108 ha), fólkvanginn Garðahraun neðra (21 ha) og fólkvanginn Garðahraun efra (58 ha). Alls eru svæðin 187 ha að stærð. Friðlandið Gálgahraun var friðlýst árið 2009 en fólkvangarnir árið 2012.

Samkvæmt friðlýsingarskilmálum þá skal áður en til framkvæmda kemur inni á hinum friðlýstu svæðum vinna deiliskipulag svæðanna. Nú eru þær deiliskipulagsáætlanir í vinnslu á vegum skipulagsyfirvalda í Garðabæ, þ.e. hjá skipulagsnefnd, umhverfisnefnd og tækni-og umhverfissviði í samráði við Umhverfisstofnun.

Ferill deiliskipulagsvinnunnar er á grundvelli verkefnislýsingar sem samþykkt hefur verið í bæjarstjórn Garðabæjar. Tillögur hafa nú verið kynntar á vinnslustigi eða forkynningarstigi, m.a. á íbúafundi sem haldinn var 6. maí sl. Fjöldi ábendinga hefur borist sem teknar hafa verið til úrvinnslu.

Stígagerð um svæðin

Eitt af því sem deiliskipulagsáætlunum þessum er ætlað að skilgreina er lega og gerð stíga og leiða um svæðin. Lögð er áhersla á það í samræmi við ákvæði friðlýsingar að vernda hraunið vegna jarðmyndana og lífríkis en um leið að skapa þar vettvang náttúruskoðunar og fræðslu um ókomna tíð.

Tillagan um Gálgahraun og Garðahraun neðra sem hefur verið forkynnt á vinnslustigi gerir ráð fyrir 3 metra breiðum göngu- og hjólreiðastíg syðst í friðlandi Gálgahrauns sem er ætlað að tengja saman fjölfarnar göngu- og hjólreiðaleiðir frá Álftanesi yfir í Ásahverfi og Sjálandshverfi. Sá stígur yrði um 1,3 km að lengd og yrði samkvæmt tillögunni malbikaður og lýstur. Í forkynningu hafa komið ábendingar og hugmyndir um að sá stígur verði hvorki malbikaður eða lýstur og eru þær nú til umfjöllunar og skoðunar hjá skipulagsyfirvöldum Garðabæjar, ráðgjöfum og Umhverfisstofnun.

Tillagan gerir auk þess ráð fyrir 2 m breiðum malarstíg eftir miðju friðlandinu og fólkvanginum sem liggur þvert á áðurnefnda göngu-og hjólreiðaleið og er ætlað í samræmi við markmið friðlýsingar að auðvelda fólki að komast um hraunið til náttúruskoðunar og útivistar. Samanlögð lengd þeirra malarstíga yrði um 2 km ef stígurinn í fólkvangnum Garðahraun neðra er talinn með. Aðrar leiðir sem sýndar eru á uppdrætti með tillögunni verða stikaðar leiðir, yfirleitt þar sem slóðar eru fyrir enda um margar fornar leiðir í hraununum að ræða. Í forkynningu hafa komið fram hugmyndir um að í stað malarstíga verði aðeins skilgreindar stikaðar leiðir og hefur þeim hugmyndum verið vísað til úrvinnslu eins og hugmyndum varðandi göngu-og hjólreiðastíg. 

Hér má sjá tillöguna um Gálgahraun og Garðahraun neðra í forkynningu.  
Tillaga um Garðahraun efra í forkynningu.

Unnið samkvæmt markmiðum friðlýsinga

Eins og fram kemur hér að ofan er Garðabær að vinna tillögurnar samkvæmt markmiðum friðlýsinganna og gerir það í samvinnu við Umhverfisstofnun. Einnig má geta þess að Garðabær hafði frumkvæði að því að umrædd svæði yrðu friðlýst ásamt öðrum svæðum í Garðabæ enda stefnir í að um 40% af landi innan lögsögu Garðabæjar verði friðlýst samkvæmt náttúruverndarlögum auk hverfisverndaðra svæða samkvæmt aðalskipulagi.