31. okt. 2024

Dagrún Ósk býður hugrökkum í draugagöngu

Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur mun fara með hugrakka íbúa í draugagöngu í tilefni Hrekkjavökunnar.

Í tilefni Hrekkjavökunnar mun Dagrún Ósk Jónsdóttir þjóðfræðingur leiða draugagöngu frá bókasafninu í Garðabæ og upp í Minjagarðinn á Hofstöðum.

Á leiðinni mun Dagrún segja aðeins frá draugum og þeim ólíku gerðum drauga sem finnast á Íslandi, uppvakningum, afturgöngum, útburðum og fépúkum, auk þess að segja nokkrar vel valdar íslenskar draugasögur.

Þá verður einnig farið yfir ýmis praktísk atriði, eins og hvernig má þekkja drauga sem fólk mætir á förnum vegi, að vekja þá upp og losna undan ásóknum þeirra.

Gangan hefst klukkan 19:00 og eru öll velkomin.