Dreymir um að komast í dansskóla í New York eða Chicago
Alexandra Vilborg Thompson úr félagsmiðstöðinni Urra í Urriðaholti bar sigur úr býtum í einstaklingskeppni 13 ára og eldri í danskeppni Samfés. Alexandra hefur brennandi áhuga á dansi og hefur æft íþróttina í um sjö ár. Hún æfir í Listdansskóla Hafnarfjarðar.
-
Við hittum Alexöndru á öskudaginn og hún var klædd sem sjóræningi.
Alexandra Vilborg Thompson úr félagsmiðstöðinni Urra sigraði í einstaklingskeppni 13 ára og eldri í danskeppni Samfés með „lyrical/contemporary verki við lagið L‘AMOUR DE MA VIE með Billie Eilish, sú tónlistarkona er í miklu uppáhaldi hjá Alexöndru. Hún segir tónlist Billie Eilish vera mjög dansvæna og nýjustu plötu hennar frábæra.
Alexandra samdi verkið í desember og lagið mikinn metnað í að fullkomna og fínpússa verkið. „Ég var marga klukkutíma uppi í dansstúdíói að æfa fyrir keppnina,“ segir Alexandra. En hana grunaði samt ekki að hún myndi sigra sinn flokk. „Ég hélt sko að ég myndi ekki ná sæti, því Samfés er meira svona hip hop-keppni. Þannig að ég var í sjokki þegar útslitin voru tilkynnt,“ segir hún.
Langar að vinna við bæði dans og lögfræði
Alexandra segir mikla og góða stemningu hafa myndast baksviðs á danskeppninni þar sem keppendur hvöttu hvorn annan áfram. Góða stemningin hjálpaði þegar stressið gerði vart við sig. „Ég var frekar stressuð en þetta var samt alveg æðislegt. Ég á vinkonu sem keppti í hópatriði, hún heitir Birta og er að æfa með DansKompaní. Hún var þarna með vinkonum sínum og ég var mikið með þeim og það var ótrúlega gaman.“‘
Keppt var í einstaklings- og hópakeppni í tveimur aldursflokkum: 10-12 ára og 13 ára og eldri. Keppnin var haldin í Garðaskóla.
Spurð út í framtíðarplön segir Alexandra drauminn vera að komast inn í dansskóla í New York eða í Chicago. „Danskennarinn minn hún Mirjan er mín fyrirmynd og hún fór í dansskóla úti í New York. Fólk þarf oft að sækja um aftur og aftur áður en það kemst inn, það eru bara teknir um 10 nemendur inn á ári. Svo langar mig líka í lögfræðinám,“ segir Alexandra sem sér alveg fyrir sér að læra og starfa við bæði dans og lögfræði.
Mirjan var að vonum afar ánægð með árangur Alexöndru í danskeppni Samfés. Hún naut hennar aðstoðar við gerð dansverksins. „Þegar ég var búin að semja verkið þá sýndi ég henni það og hún kom með nokkra punkta og leiðbeiningar fyrir mig,“ útskýrir Alexandra.