6. des. 2022

Efla þarf forvarnarstarf lögreglu og sýnilega löggæslu

Á stjórnarfundi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í dag, 5. desember, var bókun samþykkt um mikilvægi þess að lögreglan verði efld og styrkt til þess að hún geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu.

Á stjórnarfundi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í dag, 5. desember, var svohljóðandi bókun samþykkt:

,,Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu fagna þeim áformum sem endurspeglast í fjáraukalögum um styrkingu lögreglunnar á landsvísu. Í ljósi þeirra fjölmörgu áskorana sem lögreglan stendur frammi fyrir telja samtökin mikilvægt að lögreglan verði efld og styrkt til þess að hún geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu. Það er jafnframt mikilvægt að hún sé sýnileg til auka öryggiskennd íbúa og til að halda uppi ákveðnu öryggisstigi.

Á höfuðborgarsvæðinu búa um 64% landsmanna. Hlutfall lögreglu á höfuðborgarsvæðinu hefur hinsvegar lækkað úr því að vera 47% af starfandi lögregluþjónum á landinu á árinu 2010 í 39% á árinu 2022. Enn meiri fækkun hefur orðið á hlutfalli borgaralegra starfsmanna lögreglunnar.

Sveitarfélögin eiga í góðu samstarfi við lögregluna, ekki síst þegar kemur að forvarnarmálum vegna barna og ungmenna. Það er því afar mikilvægt styrkja lögregluna á höfuðborgarsvæðinu, til að halda í við íbúaþróun og jafnframt að þróa áfram hugmyndafræði samfélagslöggæslu. Með fjölgun samfélagslögregluþjóna, sem vinna markvisst með velferðarþjónustu og félagsmiðstöðvum er hægt að grípa strax inn í hópamyndanir og ofbeldi á meðal ungmenna og stemma þannig stigu við afbrotum og jafnframt að auka við þjónustustig lögreglunnar í samfélaginu.“

Í stjórn samtakanna sitja bæjarstjórar á höfuðborgarsvæðinu og borgarstjóri.

,,Höfuðborgarsvæðið hefur verið að dragast aftur úr þegar kemur að mönnun í lögreglunni“ segir Regína Ásvaldsdóttir formaður stjórnar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. ,,Nú eru starfandi lögregluþjónar í 1,2 stöðugildum á hverja þúsund íbúa hér á þessu svæði og er það langlægsta hlutfall á landinu“.

Hér má sjá frétt á vef SSH um málefnið.