11. maí 2018

Einstök veðurstöð á sviði blágrænna regnvatnslausna rís í Urriðaholti

Garðabær, Urriðaholt ehf., Veðurstofa Íslands og Háskóli Íslands fara í samstarf um uppbyggingu rannsóknarmiðstöðvar á sviði blágrænna regnvatnslausna. Samningur þess efnis var undirritaður í dag, föstudaginn 11. maí, af Gunnari Einarssyni bæjarstjóra Garðabæjar, Ólafi Helga Ólafssyni stjórnarformani Urriðaholts ehf, Jóni Atla Benediktssyni rektor Háskóla Íslands og Árna Snorrasyni forstjóra Veðurstofu Íslands.

  • Undirritunin í Urriðaholti
    undirritun í Urriðaholti
  • undirritun í Urriðaholti
    undirritun í Urriðaholti
  • undirritun í Urriðaholti
    undirritun í Urriðaholti
  • undirritun í Urriðaholti
    undirritun í Urriðaholti

Garðabær, Urriðaholt ehf., Veðurstofa Íslands og Háskóli Íslands fara í samstarf um uppbyggingu rannsóknarmiðstöðvar á sviði blágrænna regnvatnslausna. Samningur þess efnis var undirritaður í dag, föstudaginn 11. maí, af Gunnari Einarssyni bæjarstjóra Garðabæjar, Ólafi Helga Ólafssyni stjórnarformani Urriðaholts ehf, Jóni Atla Benediktssyni rektor Háskóla Íslands og Árna Snorrasyni forstjóra Veðurstofu Íslands.  Undirritunin fór fram í Urriðaholtsskóla í Garðabæ.  Samkvæmt samningnum verður sett upp hátækni veðurstöð í Urriðaholti, sem mun rísa sunnanmegin í holtinu á opnu svæði vestan við Kauptún. 

Jafnframt var undirritaður þjónustusamningur milli Garðabæjar og Veðurstofu Íslands um rekstur á sjálfvirku veðurstöðinni sem sett verður upp í Urriðaholti. 

Á meðfylgjandi aðalmynd með frétt eru frá vinstri:
Hrund Ólöf Andradóttir, prófessor í umhverfisverkfræði við HÍ, Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands, Jóna Sæmundsdóttir formaður umhverfisnefndar Garðabæjar, Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar, Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands og Ólafur Helgi Ólafsson, stjórnarformaður Urriðaholts ehf.

Blágrænar regnvatnslausnir í Urriðaholti

Blágrænum regnvatnslausnunum er beitt til að draga úr álagi á fráveitukerfi og viðhalda um leið heilbrigðum og sjálfbærum vatnsbúskap. Markmiðið er margþætt og felur m.a. í sér auðveldara og ódýrara viðhald fráveitukerfa, lengri líftíma þeirra og síðast en ekki síst ávinninginn sem felst í að hleypa vatni og gæðum þess aftur inn í hið byggða umhverfi á öruggan og markvissan hátt. 

Byggð umhverfis Urriðavatn er að hluta innan vatnasviðs þess. Til að koma í veg fyrir að vatnsbúskapur svæðisins raskist vegna byggðarinnar er ofanvatn frá henni meðhöndlað til að líkja eftir ferlum náttúrunnar. Í Urriðaholti var í fyrsta sinn á Íslandi beitt slíkum sjálfbærum ofanvatnslausnum í heilu hverfi. Regnvatni og snjó af þökum, götum og bílastæðum er beint í ofanvatnsrásir sem eru meðfram götum og/eða til safnlauta í grænum geirum. Þar sígur vatnið í jörðu og berst til Urriðavatns og votlendisins.

Ávinningurinn af uppbyggingu rannsóknarmiðstöðvarinnar

1. Uppbygging innviða til rannsókna, s.s. tækja og aðstöðu fyrir rannsakendur, m.a. á hátækni veðurstöð og mælitækjum henni tengdri, sem sett verður upp í Urriðaholti. Stöðin og búnaður henni tengdri mun verða einstök veðurstöð til tilrauna á landsvísu. Þar eru m.a. sérhæfð tæki til mælinga vegna sjálfbærra regnvatnslausna, svo og úrkomu á 1 mínútu fresti, í fyrsta sinn á Íslandi.  
2. Vísindalegar rannsóknir á virkni sjálfbærra regnvatnslausna. Þörfin fyrir blágrænar regnvatnslausnir, hérlendis jafnt sem erlendis, eykst hratt m.a. vegna áhrifa hnattrænnar hlýnunar. Þær auka seiglu bæja til að takast á við loftslagsbreytingar, hreinsa vötn, ár og læki, grænka borgir og auka líffræðilegan fjölbreytileika þeirra. Síðast en ekki síst þá sýnir reynslan að þær eru hagkvæmari en þær hefðbundnu.
3. Langtímavöktun á veðurfari sem innifelur þætti sem skipta sköpum í fráveituhönnun, t.d. regn, hiti, sólarorka og snjóalög.
4. Miðlun veðurfarsgagna til þeirra rannsakenda sem áhuga hafa á nákvæmum veðurfarsgögnum af höfuðborgarsvæðinu. Einnig til nemenda og íbúa í Urriðaholti, svo og áhugasamra aðila almennt. 

Til að tryggja farsæla uppbyggingu blágrænna regnvatnslausna á Íslandi er þörf á meiri eftirfylgni og vöktun á veðurfari í íslensku þéttbýli samhliða því að byggja upp reynslu og þverfræðilega þekkingu á þessu sviði. Rannsóknarmiðstöðin í Urriðaholti er því mikilvægur vettvangur í því samhengi.

Hvers vegna í Urriðaholti?

Urriðaholt er fyrsta BREEAM umhverfisvottaða hverfið á Íslandi og fyrsta hverfið þar sem blágrænar regnvatnslausnir voru innleiddar sem aðallausn á ofanvatni til verndar Urriðavatni. Það er einnig fyrsta hverfið á heimsvísu þar sem blágrænar regnvatnslausnir hafa verið innleiddar á jafn norðlægri breiddargráðu og í jafn miklum landhalla. Hverfið þykir eftirbreytnivert alþjóðlegt dæmi um farsæla innleiðingu þeirra og hefur þegar vakið athygli vegna þessa. Því þótti kjörið að nýta Urriðaholtið sem rannsóknarvettvang fyrir vísindalegar rannsóknir á blágrænum regnvatnslausnum, og miðla niðurstöðum úr þeirri vinnu jafnt innan- sem utanlands.

Á vefsíðu Urriðaholts ehf má sjá ítarefni um ofanvatnslausnir í hverfinu.